Færsluflokkur: Bloggar

Aðildarviðræður næsta mál

Meirihluti þjóðarinar vill aðildarviðræður við Evrópusambandið. Evrópumálin voru helsta kosningamál Samfylkingarinnar og það kemur ekki til greina að hvika frá þeim. Forystumenn VG hafa sagt að þeir muni ekki standa gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Þjóðin á að eiga síðasta orðið í þessum efnum og það á ekki að vera valkostur að einhverjir sjálfskipaðir sérfræðingar taki þann lýðræðislega rétt af henni. Ef við ætlum að ná efnahagslegum stöðugleika aftur er ljóst að við þurfum aðra mynt og þá kemur einhliða upptaka ekki til greina. Aðildarviðræður og innganga í Evrópusambandið er næsta mál á dagskrá.
mbl.is Stjórnarsáttmáli í smíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindabrot

Samkvæmt skýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, sem kom út undir lok síðasta árs, njóta hælisleitendur ekki nægilegrar verndar í Grikklandi. Samtökin segja að Grikkir haldi hælisleitendum við óviðunandi aðstæður, neiti nær öllum beiðnum um hæli og flytji hælisleitendur jafnvel með valdi og leynd til Tyrklands. Skýrsluhöfundar halda því fram að gríska strandgæslan ýti bátum með flóttafólki út úr landhelginni, stundum með því að setja gat á gúmmíbáta eða gera báta óhæfa til siglingar með öðrum aðferðum.

Mannréttindaskýrslur segja einnig frá skefilegri meðferð grískra lögregluyfirvalda á flóttabörnum í Grikklandi. Þetta er ekki nýtt vandamál. Þannig skýrði nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna frá áhyggjum sínum af meðferð barna úr hópi flóttamanna í Grikklandi þegar árið 2002. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna benti á það árið 2004 að verulega skorti á að hagsmunir þessara barna væru verndaðir og undir þetta hafa grískar eftirlitsstofnanir og umboðsmaður tekið.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað gert athugasemdir við meðferð flóttamanna í Grikklandi, bæði fullorðinna og barna. Fyrir tæpu ári sendi stofnunin frá sér skjal þar sem fram kemur að þó að grísk yfirvöld hafi gert nokkrar umbætur, mæti flóttamenn þar í landi enn hindrunum sem komi í veg fyrir að þeir njóti þeirra réttinda sem þeir eiga að hafa samkvæmt alþjóðlegum og evrópskum reglum. Því mælir Flóttamannastofnun SÞ með því að lönd sendi EKKI flóttamenn aftur til Grikklands, heldur notfæri sér heimildarákvæði í Dyflinnarsamningnum til þess að afgreiða umsókn um hæli.


mbl.is „Engin ástæða til að senda ekki fullorðna til Grikklands"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýr skilaboð

Samfylkingin þarf af senda skýr skilaboð út í samfélagið eftir landsfundinn hér í Smáranum um helgina. Brýnasta verkefni okkar allra er að endurvinna traust á íslenska hagkerfinu og koma á efnahagslegum stöðugleika. Það verður að mínu mati ekki gert án þess að við lýsum því yfir að Ísland stefni að aðildarviðræðum við Evrópusambandið og upptöku evru.

Í aðdraganda bankahrunsins kom það skýrt í ljós að upplýsingaflæði skorti á milli ráðuneyta og ríkisstofnana. Við þurfum að draga lærdóm af þessu og koma í veg fyrir að sagan geti endurtekið sig. Tillögur sem liggja fyrir landsfundi Samfylkingarinnar um efnahagsmál eru skref í rétta átt.

Samfylkingin þarf einnig að senda skýr skilaboð um þá stefnu sem flokkurinn hyggst fylgja í ríkisfjármálum. Við þurfum að vera rödd skynseminnar í skattamálum og fullvissa almenning um það að Samfylkingin muni standa gegn öfgum í skattheimtu, jafnframt því sem hún stendur vörð um velferðarkerfið.


mbl.is Eitt ráðuneyti efnahagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að læra ekkert

Það er greinilegt að Davíð Oddsson hefur ekkert lært. Davíð tekur enga ábyrgð á algeru hruni íslenska fjármálakerfisins, jafnvel þó að fyrrum aðalhagfræðingur Seðlabankans hafi viðurkennt að mistök hafi átt sér stað í peningamálastefnunni í aðdraganda hrunsins. Hið stórkostlega tjón, sem íslenska þjóðin hefur svo sannarlega orðið fyrir, var unnið á vakt Davíðs og undir hans stjórn, fyrst sem forsætisráðherra og síðan sem Seðlabankastjóra.

En í huga Davíðs er mesta tjónið ekki hrun íslensku viðskiptabankanna eða fall krónunnar. Í hans huga snýst allt um hann sjálfan og vonda Samfylkingarmenn sem ráku hann úr Seðlabnkanum. Hann virðist kæra sig kollóttann um þann stóra hóp fólks sem hefur misst vinnuna og á í erfiðleikum með að borga af húsnæðislánunum.  Honum er meira í mun að ráðast á þá sem þó þorðu að gagnrýna hann og þá stefnu sem endaði í sameiginlegu skipbroti Íslendinga.

Nei, Davíð hefur ekkert lært á íslenska efnahagshruninu og þeir Sjálfstæðismenn sem klöppuðu og hlógu að ræðu hans á landsfundinum hafa greinilega ekkert lært heldur. Hinir, sem gengu út þegar hann réðst á eigin samflokksmenn, hljóta að spyrja sig hvort að þeir séu í réttum flokki.


mbl.is Víkingar með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hennar tími er kominn

Ákvörðun Jóhönnu Sigurðardóttur eru fagnaðarefni fyrir Samfylkingarfólk og í raun fyrir þjóðina alla. Hún er ekki valdagráðug, en einmitt þess vegna er hún sá leiðtogi sem við þörfnumst. Vissulega eru einhverjir andstæðingar Samfylkingarinnar og núverandi ríkisstjórnar ósáttir við það að hún verði formaður flokksins, en það er einfaldlega vegna þess að hún ógnar þeim. Þeir taka eigin hag og hag eigin flokks fram yfir hag þjóðarinnar. Með Jóhönnu í forystu aukast líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði utan ríkisstjórnar á næstunni. Það er líka fagnaðarefni.
mbl.is Jóhanna svarar kalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jobama

Fáir eða engir stjórnmálamenn hafa notið álíka trausts íslensku þjóðarinnar á undanförnum árum og Jóhanna Sigurðardóttir. Hún var langvinsælasti ráðherrann í síðustu ríkisstjórn, um það leyti sem bankarnir hrundu, og hún nýtur enn vinsælda þrátt fyrir erfiða stöðu. Enginn kandidat í formannsstól Samfylkingarinnar kemst með tærnar þar sem hún hefur hælana hvað traust og vinsældir varðar.

Vinsældir Jóhönnu Sigurðardóttur eru engar stundarvinsældir. Árið 1993 var hún valin kona ársins af tímaritinu Nýju Lífi, en þá var hún félagsmálaráðherra og einnig vinsælasti ráðherrann. Fólk treystir Jóhönnu af því að hún er þekkt fyrir heiðarleika, vinnusemi og óþreytandi baráttukraft.

Jóhanna er starfsaldursforseti þingsins og á þessu ári nær hún hefðbundnum íslenskum eftirlaunaaldri, þar sem hún verður 67 ára í haust. Það er kannski skiljanlegt að hún vilji hugsa sig um, áður en hún tekur að sér formennsku í stórum stjórnmálaflokki. Hins vegar þarf þjóðin sárlega á Jóhönnu að halda.

Bandaríkjamenn kusu Barack Obama til þess að stýra landinu í gegnum kreppuna. Kjör hans vakti með þjóðinni von um nýja og betri tíma. Okkar vonarstjarna er ekki nýliði í ríkisstjórn, heldur 66 ára gömul kona sem stendur fyrir allt það sem vantaði í íslensku samfélagi síðustu árin. Íslendingar þurfa leiðtoga sem stendur fyrir traust, heiðarleika, jafnrétti og réttlæti. Vonandi svarar Jóhanna kallinu.


mbl.is Biðin eftir Jóhönnu á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri útfærsla

Þetta er talsvert betri útfærsla á hugmyndinni um niðurfellingu skulda heldur en hjá Framsóknarmönnum og Tryggva Þór Herbertssyni. Ég er algjörlega sammála Lilju varðandi það að ekki sé skynsamlegt að beita flatri niðurfellingu skulda gagnvart fyrirtækjum. Stöðu þeirra þarf að skoða sérstaklega.

Lilja Mósesdóttir hagfræðingur bendir á þá staðreynd að um 40% húsnæðisskulda landsmanna eru hjá Íbúðalánasjóði. Ef niðurfellingin á að ná til þeirra líka, og það er ekkert vit í öðru, mun greiðslan á endanum koma úr vasa skattgreiðenda. Það er líka rétt hjá Lilju að það er ekkert endilega sanngjarnt að þeir sem tóku hæstu lánin fyrir stærstu fasteignunum eigi að fá mest niðurfellt.

Sama krónutalan á alla er að mörgu leyti sanngjarnari en flöt 20% niðurfelling á allar skuldir án nokkurs hámarks eða eignatengingar. Ég er ennþá svolítið skotin í hugmyndinni um 20% niðurfellingu með þaki og e.t.v. eignatengingu, en kannski er hún of flókin í framkvæmd. Þessi tillaga Lilju er að minnsta kosti mun betri en tillaga Framsóknarmanna og Tryggva Þórs. Loksins er kominn vitrænni umræðugrundvöllur fyrir lækkun skulda og því ber að fagna.


mbl.is Vill fella niður 4 milljónir af höfuðstól húsnæðislána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirboð í kosningabaráttunni

Mér fundust hugmyndir Framsóknarflokksins um flatan 20% niðurskurð skulda ekki gáfulegar þegar þær komu fram og þessi útfærsla Tryggva Þór Herbertssonar er ekki betri. Það er alveg rétt hjá forsætisráðherra að kosningarloforðin eru komin á fullt. Hins vegar tel ég að tillögur ríkisstjórnarinnar um örlitla hækkun á vaxtabótum dugi skammt.

Við þurfum eitthvað meira en bara nokkra þúsundkalla í viðbót í vaxtabætur. Sú hækkun er skammtímalausn sem hjálpar lítið sem ekkert gagnvart milljóna hækkun á höfuðstól húsnæðislána. Það væri vel hægt að útfæra þessa hugmynd um 20% niðurfellingu miklu betur. Til dæmis hef ég verulega efasemdir um að þessari aðferð eigi að beita gagnvart fyrirtækjum. Þar verður að skoða stöðu fyrirtækjanna í heild og getu þeirra til áframhaldandi starfsemi.

Mér finnst líka að það verði að vera eitthvað þak á niðurfellingunni. Meðalhúsnæðislánið er samkvæmt fréttum innan við 30 milljónir. Á ríkið að vera að fella niður t.d. 20 milljónir af 100 milljóna láni, sem einhver tók til þess að kaupa sér dýrt einbýlishús eða til þess að braska með hlutabréf? Er það hlutverk hins opinbera? Svo mætti líka skoða eignatengingu. Sá sem á hreina eign upp á tugi eða hundruðir milljóna þarf kannski ekki niðurfellingu á nokkurra milljóna skuld.

Með þaki á niðurfellingunni og mögulega með eignatengingu gæti 20% niðurfærsla gengið gagnvart húsnæðislánum einstaklinga, en eins og Tryggvi Þór leggur þetta fram er aðeins um kosningayfirboð að ræða sem aldrei verður framkvæmt.


mbl.is Húsráð Tryggva Þórs þykja vond
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott niðurstaða

Sem hagfræðinörd er ég sérstaklega ánægð með að sjá Lilju Mósesdóttur ofarlega á þessum lista. Ég vona að það sé rétt sem félagi Stefán Pálsson segir, að hún verði ekki færð niður listann vegna kynjakvóta. Það þýðir að Lilja verður í 2. sæti í öðru Reykjavíkurkjördæminu og því væntanlega á leið á þing. Ég er reyndar ekki sammála henni varðandi AGS, en það er samt þörf á fólki á þing sem skilur hagfræði og efnahagsmál.

Ég sé að sumir Moggabloggarar fagna því að Kolbrún Halldórsdóttir hafi fallið niður listann. Það geri ég ekki og vona að hún verði áfram á þingi. Við þurfum sannfærða umhverfissinna á Alþingi Íslendinga, ekki síst núna í kreppunni þegar fólki hættir til þess að fórna langtímahagsmunum fyrir skammtímagróða. Kolbrún hefur líka verið ötull talsmaður kvenfrelsis og jafnréttis, sem eru mjög mikilvægir málaflokkar þó að þeir séu ekki alltaf ávísun á vinsældir.

Kolbrún hefur verið samkvæm sjálfri sér og stefnu VG. Hún hefur enn mikið verk að vinna og það sama á við um annan umhverfissinna, Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrrverandi umhverfisráðherra, sem er í prófkjörsslag hjá Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi. Íslendingar eiga ekki og mega ekki kasta umhverfisvernd fyrir róða, bara af því að það kreppir að. Það kemur í bakið á okkur þó að síðar verði.


mbl.is Katrín og Svandís efstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynjakvóti eða kvennakvóti?

Það er sérstaklega ánægjulegt að Siv Friðleifsdóttir hafi sigrað í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Siv hefur verið ötull talsmaður jafnréttis á Alþingi og hefur hún sérstaklega barist fyrir auknum hlut kvenna í stjórnmálum. Ekki er það síður merkilegt að konur hafi hafnað í fimm efstu sætum prófkjörsins.

Nú er kynjakvóti viðhafður í mörgum flokkum og samkvæmt reglum Framsóknarflokksins verða tvær af þessum fimm konum að færast niður listann. Einnig virðist sem einhverjar konur verði að færast niður á listum vinstri grænna í Reykjavík, miðað við úrslitin þar. Þar urðu þrjár konur í þremur efstu sætunum, þannig að þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir munu leiða lista í Reykjavíkurkjördæmunum. Ef reglum um fléttulista verður beitt verður Lilja Mósesdóttir ekki í öðru sæti í öðru kjördæminu, heldur mun hún færast niður listann.

Konur voru rétt um þriðjungur þingmanna eftir síðustu Alþingiskosningar og þeim fækkaði frá kosningunum þar á undan. Enginn flokkanna var með jafnt hlutfall kynjanna í þingflokknum, en VG komst þó næst því þar sem 44% þingmanna flokksins voru konur. Hjá hinum flokkunum voru konur um þriðjungur, nema hjá Frjálslyndum sem hefur verið hreinræktaður karlaflokkur á þingi.

Ísland er ekkert sérstaklega framarlega hvað varðar hlutfall kvenna á þingi. Svíþjóð, Finnland og Danmörk hafa öll verið með hærra hlutfall kvenna á þingi en við, einnig Noregur, Holland, Belgía, Spánn og fleiri lönd. Spurningin er hvort að það sé rétt að beita kynjakvóta til þess að færa konur neðar á lista, þegar staðan er þannig að þær eru í miklum minnihluta á þingi? Er kynjakvótinn til þess að jafna hlutföll kynjanna á hverjum lista, eða er hann til þess að jafna hlutföll kynjanna á þingi?

Það er að minnsta kosti eitt fordæmi fyrir því að kynjakvóta var ekki beitt hjá VG í síðustu kosningum, þar sem reglur kröfðust þess að færa ætti konu niður listann. Ef við lítum á hlutfall kynjanna á þingi tel ég rökrétt að beita kynjakvótanum ekki til þess að færa konur niður lista. Þegar hlutfall kynjanna er orðið jafnt á Alþingi er hægt að beita kynjakvótanum jafnt á bæði kyn, en ekki fyrr.


mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband