Betri útfærsla

Þetta er talsvert betri útfærsla á hugmyndinni um niðurfellingu skulda heldur en hjá Framsóknarmönnum og Tryggva Þór Herbertssyni. Ég er algjörlega sammála Lilju varðandi það að ekki sé skynsamlegt að beita flatri niðurfellingu skulda gagnvart fyrirtækjum. Stöðu þeirra þarf að skoða sérstaklega.

Lilja Mósesdóttir hagfræðingur bendir á þá staðreynd að um 40% húsnæðisskulda landsmanna eru hjá Íbúðalánasjóði. Ef niðurfellingin á að ná til þeirra líka, og það er ekkert vit í öðru, mun greiðslan á endanum koma úr vasa skattgreiðenda. Það er líka rétt hjá Lilju að það er ekkert endilega sanngjarnt að þeir sem tóku hæstu lánin fyrir stærstu fasteignunum eigi að fá mest niðurfellt.

Sama krónutalan á alla er að mörgu leyti sanngjarnari en flöt 20% niðurfelling á allar skuldir án nokkurs hámarks eða eignatengingar. Ég er ennþá svolítið skotin í hugmyndinni um 20% niðurfellingu með þaki og e.t.v. eignatengingu, en kannski er hún of flókin í framkvæmd. Þessi tillaga Lilju er að minnsta kosti mun betri en tillaga Framsóknarmanna og Tryggva Þórs. Loksins er kominn vitrænni umræðugrundvöllur fyrir lækkun skulda og því ber að fagna.


mbl.is Vill fella niður 4 milljónir af höfuðstól húsnæðislána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Mér líst betur á 20% niðurfellingu. Stærsta orsök þessara ofskuldsetningar heimilana er of hátt fasteignaverð. Það má vel vera að sumir hafi keypt sér dýrara en þörf var á en þeir hafa enga möguleika á að selja til að fá sér ódýrara fyrr en búið er að afskrifa skuldir niðrí raunhæft markaðsverð.

Offari, 18.3.2009 kl. 22:14

2 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Það er alls ekkert sjálfgefið að sá sem er með hærra húsnæðislán en 30 milljónir sé of skuldsettur eða eigi erfitt með að standa undir afborgunum. Hann getur allt eins átt 100 milljóna villu á Arnarnesinu og verið með milljón á mánuði í laun.

Ef við förum þá leið að fella niður 20% húsnæðislána þá held ég að það verði að vera eitthvað þak - eitthvað hámark á niðurfellingunni sem sagt. Ég er líka alfarið á móti því að fyrirtækjaskuldir séu teknar þar inn í eins og ég hef fjallað um.

En ég er jafn mikið á móti því að þetta verði gert á einhverjum félagslegum forsendum, þar sem t.d. aðeins þeir sem eru í vanskilum eða eru atvinnulausir fá niðurfellingu, eða hún verður reiknuð út frá fjölda barna og skattstofni árins 2008. Ég er svolítið hrædd um að Jóhanna vilji fara þá leið.

Svala Jónsdóttir, 18.3.2009 kl. 22:50

3 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sæl

Ríkissjóður er rekinn með 150 milljarða halla. Allur hallinn og hundruð milljarða til viðbótar eru fengin að láni erlendis um þessar mundir. Vilja menn á sama tíma auka hallann enn og greiða niður skuldir hjá fólki sem þarf ekki á því að halda ?

Það mætti halda að það væru að koma kosningar...

Kveðja góð,

Hrannar Björn Arnarsson, 19.3.2009 kl. 00:28

4 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Samkvæmt úttekt Seðlabankans sem var birt fyrir um viku, skulda ríflega 40 % heimila meira en eign þeirra stendur undir. Meirihluti þeirra er með verðtryggð húsnæðislán í íslenskum krónum. Óðaverðbólgan undanfarið, sem skrifast að miklu leyti á ranga efnahagsstjórn undanfarinna ára, hefur þurrkað út eigið fé þessa fólks í eigin húsnæði.

Sá sem lagði nokkrar milljónir á verðtryggðan reikning í banka árið 2005 á þær ennþá með vöxtum og verðbótum. Ríkisstjórnin tryggði allar innistæður, óháð þörf. Þá var ekki talin þörf á því að stjórnvöld væru að meta hverjir þyrftu á tryggingu síns sparifjár að halda og hverjir ekki. En sá sem lagði jafnmargar milljónir í eigið húsnæði árið 2005, hefur til tapað þeim. Er það sanngjarnt?

Samfylkingin þarf að koma með einhverjar raunhæfar tillögur fyrir þennan hóp. Frysting eða lenging lána eykur bara á vandann. Nokkrir þúsundkallar í viðbót í vaxtabætur duga ekki til.

Svala Jónsdóttir, 19.3.2009 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband