Icesave blekkingin

Einhverjir virðast halda að það hafi verið eitthvað val hjá okkur Íslendingum að taka ábyrgð á innistæðum Icesave-reikninga Landsbankans. Þeir sömu hafa haldið því fram að við ættum að neita að borga. Jafnvel hafa fallið gífuryrði um landráð og svik. En allt þetta tal er blekking ein.

 Þeir sem halda þessu fram eru annað hvort að tala gegn betri vitund, eða hafa ekki kynnt sér málin nægilega vel. Innlánastarfsemi Landsbankans fór fram í útibúum bankans á Bretlandseyjum og í Hollandi. Ekki var um dótturfélög að ræða. Innlán í íslenskum bönkum eru tryggð samkvæmt íslenskum lögum, hvort sem um er að ræða íslensk eða erlend útibú bankanna.

Í íslenskum lögum um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta segir að eftirfarandi séu aðilar að sjóðnum: "Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafa staðfestu hér á landi, skulu eiga aðild að sjóðnum. Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum."

Ein meginregla íslensks réttarfars er jafnræðisreglan, sem tryggð er í stjórnarskrá lýðveldisins. Þar segir í 65. grein: "Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."

Þeir sem halda því fram að íslenska ríkið eigi enga ábyrgð að bera gagnvart innistæðueigendum í sumum útibúum Landsbankans en ekki öðrum, eru í andstöðu við hvort tveggja, lög um innistæðutryggingar og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þeir sem vilja ekki borga eru í raun að hvetja til þess að stjórnarskráin verði brotin.


mbl.is Erfitt að skrifa undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er málefnaleg og góð samantekt. Ekki veitir af í þessum óhróðri sem gengur yfir frá fólki sem jafnvel talar gegn betri vitund.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 20:48

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það er ekkert sem segir að við eigum að taka á okkur 11-falda stýrivexti seðlabanka Bretlands (taktu eftir að við munum væntanlega borga margfallt meira í vexti en af höfuðstólnum sem eignir ganga að miklu leiti upp í) , eða að við eigum að greiða neitt fyrr en búið er að taka bankanna til gjaldþrotaskipta. Þannig eru reglurnar, innistæðutryggingarsjóður kemur til bjargar þegar bankar verða gjaldþrota en gömlu bankarnir hafa ekki verið lýstir gjaldþrota.

Að lokum vil ég segja að ef ríkisstjórnin hefði drullast til að koma fram við okkur eins og fullorðið fólk sem á að taka þátt í þessarri uppbyggingu með henni í stað þess að láta eins og við (þar með talið grasrót og þingmenn í stjórnarliðinu) séum bara til þess fólkið sem á að plata til að borga reikninginn en ekki á að hafa nein áhrif á útkomuna þá hefði hún fengið meiri stuðning úr eigin liði. Eins og staðan er á ég eftir að sjá hana koma þessu gegnum þingið og það sem meira er hún hefur reitt til reiði fólk sem kann að bylta ríkisstjórnum. Ef hún skilur bara götuvígji og reykmerki verðum við bara að stunda samskipti við hana á þann hátt. Það er hennar val og ekki okkar.

Héðinn Björnsson, 6.6.2009 kl. 21:01

3 identicon

Héðinn: varðandi vextina þarf að hafa í huga að þetta eru ekki raunvextir eins og við erum vanir, heldur fastir vextir til langs tíma. Stýrivextir í Bretlandi eru svona lágir í skamman tíma og eiga eftir að hækka aftur.

Búast má við mikilli verðbólgu erlendis vegna gríðarlegrar seðlaprentunar sem nú er í gangi. Því má búast við að þessi skuld muni rýrna mikið að raungildi.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 21:05

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Svala. Góð og þörf ábending nú þegar bloggheimar loga af vandlætingu yfir því að Ísland verður að standa við eigin lög. Um leið og við samþykktum að borga fyrir mörgum mánuðum, var þetta búið spil. Aðeins var hægt að semja um sem hagkvæmustu kjör. Það var gert. - Það hefur legið fyrir frá upphafi að við þurftum að standa við stóru orðin. Þau komu úr munni Geirs og Ingibjargar. Ísland sagðist ætla að standa við reglur ESB um innlánstryggingar og framfylgja janframt íslenskri löggjöf sem í raun gengur enn lengra hvað varðar tryggingar.

Svanur Gísli Þorkelsson, 6.6.2009 kl. 21:05

5 Smámynd: Kristinn Árnason

Þetta er góður pistill og ég væri ekki sjálfum mér samkvæmur ef ég tæki ekki undir þetta sjónarmið stjórnarskráarinnar ég held að annað hafi verið erfitt  að gera í stöðunni en að reina að semja svona....

Kristinn Árnason, 6.6.2009 kl. 21:09

6 Smámynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Góður pistill. Þessi pólitíski leikur stjórnarandstæðinga hittir þá verst fyrir sjálfa. Ég hafði vonað að nýir þingmenn myndu koma ferskir inn en allir falla þeir í sömu gömlu gryfjuna, argast, rífast, vera á móti. Ótrúlegur barnaskapur!

Eysteinn Þór Kristinsson, 6.6.2009 kl. 21:22

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

En... í lögunum um tryggingasjóðin er gert ráð fyrir að eingöngu sé greitt úr honum að því sem marki sem inneign í honum hrekkur til. Dugi það ekki til að mæta kröfum innstæðueigenda má hann í undantekningartilvikum taka lán til að fjármagna sig, og þá aðeins á frjálsum markaði (semsagt frá öðrum bönkum). Í evróputilskipuninni sem lögin eru byggð á er þess meira að segja sérstaklega getið að ekki megi greiða í hann með ríkisábyrgð, heldur skuli það vera að meirihluta í reiðufé og aðeins að takmörkuðu leyti í verðbréfum og öðrum "pappírseignum". Hvað sem ykkur finnst um pólitíkina, þá er þessi samningur því miður ólöglegur!

Guðmundur Ásgeirsson, 6.6.2009 kl. 21:33

8 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Þegar þarsíðasta ríkisstjórn ákvað að tryggja allar innistæður á íslenskum innlánsreikningum, var um leið nokkuð ljóst að ekki væri hægt að undanskilja útibú íslensku bankanna erlendis, þar sem stofnað er til þeirra með íslenskum lögum.

Svala Jónsdóttir, 6.6.2009 kl. 21:42

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já, en ábyrgðin samkvæmt lögum um innstæðutryggingar nær engu síður bara upp að því marki sem inneign í sjóðnum hrekkur til!

10. gr. Fjárhæð til greiðslu.
Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.6.2009 kl. 21:55

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Annað sem ég vil benda ykkur á er eftirfarandi grein úr Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands:

77. gr. [Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.]1)

Það er semsagt stjórnarskrárbrot ef ríkið ætlar að ábyrgjast IceSave og fjármagna ábyrgðina að einhverju leyti með sköttunum okkar!

Guðmundur Ásgeirsson, 6.6.2009 kl. 22:06

11 identicon

Takk fyrir gott innlegg, þarfar ábendingar.

Læt flakka það sem hefur verið að skrölta um í kollinum á mér síðustu daga, vona að það sé í lagi;

1. Stórkostlegt að fylgjast með brennuvörgunum gagnrýna slökkviliðið.

2.  Nú, þegar verið er að skeina sjálfstæðinu, þá grenjar það mest.

3. Iceslave er skiptimynt samanborið við kostnaðinn af mistökum mannsins sem skipaði sjálfan sig seðlabankastjóra.

sr (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 22:13

12 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Sæl Svala, ég ætla ekki að fjalla um landráð umræðuna eða pólitík.

Maður bara spyr sig - hvenær gæti það gerst að einhver þjóð gengist í ábyrgðir fyrir skuld upp á hálfa þjóðarframleiðslu. Þetta mál er svo einstakt að leita þarf aftur til stríðsskaðabóta úr WW2 til að finna viðlíka stærðargráður. Ef þær ná þessu þá.

Áttum okkur á því að ef neyðarlög halda ekki, eða þetta mál fer í rugl þá sitjum við eftir í endanlegu þjóðargjaldþroti. Fullkomnu og endanlegu. 

Það er sjálfsagt að virða lög og alþjóðareglur, en hvar liggja mörkin? Ég velti líka fyrir mér hvaða dómstól ætla bretar að draga íslendinga fyrir ef neitum að borga þetta - þann sama og ekki má setja málið fyrir nú kannski?

Ólafur Eiríksson, 6.6.2009 kl. 22:31

13 identicon

Guðmundur, vill bara benda þér á að þú ert að að vitna í lög 98/1999 en ef þú skoðar reglugerð 120/2000 (sem er evróputilskipunin) að þá er er ég nú ekki viss um að við fáum að njóta vafans. Hér er hægt að lesa ýmislegt um trygginasjóðinn og nálgast ESB tilskipunina: http://www.tryggingarsjodur.is/Utgreidslur/

Raggi (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 00:02

14 Smámynd: Júlíus Björnsson

Tryggingarsjóður á eignir til útgreiðslu ef þörf krefur. Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til getur stjórn hans tekið lán til að greiða kröfuhöfum.

Lágmarks tryggingarfjárhæð á Íslandi er um 2,5 m.kr. eða sem jafngildir 20.887 evrum. Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til að greiða heildarfjárhæð innstæðna þá skal greiðslum skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 2,5 m.kr. er bætt að fullu en allt umfram það er bætt hlutfallslega.

Þetta kemur fram hjá Tryggingarsjóði samanber hlekkin hér fyrir ofan.

Takmörkuð ábyrgð. Svo ef 95% fæst upp í kröfur en ekki 20% þá eru Bretar ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir öllu með setningu hryðjuverkalaga. Við semjum um það leysa Breta undan hugsanlegri ábyrgð: því er rökrétt að álíta að lítið komi upp í skuldina úr höndum skilanefnda næst árin.  

Júlíus Björnsson, 7.6.2009 kl. 22:07

15 identicon

"Ein meginregla íslensks réttarfars er jafnræðisreglan" Það þýðir ekki að hún eigi við í þessu máli.

Þú ert að horfa fram hjá þeirri staðreynd að skýrsla Franska Seðlabankans frá árinu 2001 kveður á um það að innistæðutryggingar skuli ekki greiddar þegar að Bankakerfishrun er annars vegar.

Góðar ábendingar hjá Guðmundi Ageirssyni og Júlíusi Björnssyni.

sandkassi (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 22:48

16 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Þetta er miklu viðameira mál en svo að hægt sé að afgreiða það sem útgreiðslu úr tryggingarsjóði eða ekki.

Það er stjórnarskrárbrot að leggja svona skuldbindingar á þjóðina.

Þetta er milliríkjadeila við hollendinga og þó sérstaklega breta.

Þetta snýst um hvort börnin okkar öll verða greiðendur og ábyrgðarmenn á svikamyllu og glæpastarfsemi nokkurra tuga fjárglæframanna.

Fjármunir og eignir til greiðslu þessara innistæðna eru til og að mestu leiti í Englandi og skattaskjólum þeirra sjálfra. Íslendingar hafa enga leið til að nálgast það án aðstoðar breta. Þeim hefur verið bent á að þeir meigi hirða allt sem fylgir Landsbankanum og allt það sem þeir geta komið höndum yfir af eignum þeirra sem ábyrgir eru. Englendingar eru bara á því að þessar eignir séu ekki þess virði að þær gangi upp í greiðslur.

Að skuldsetja þjóðina svo hrikalega að litlar eða engar líkur séu á að hægt sé að borga hana er bara algjört rugl.

Að gera börnin okkar að ábyrgðarmönnum einhverra fjárglæfra sem þau sannarlega áttu engan þátt í er algjört rugl.

Það er enginn að segja að það eigi ekki að borga, það er aðferðin sem deilt er um.

Baldvin Björgvinsson, 9.6.2009 kl. 08:27

17 Smámynd: Júlíus Björnsson

Heyr!  Baldvin B.

Ég tek ekki upp hanskann fyrir glæpamenn. Ég kasta í þá öðrum steininum.

Júlíus Björnsson, 9.6.2009 kl. 14:43

18 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

aaaaarrrg! ÉG reiti hár mitt Svala, yfir allri vitleysunni og ruglinu sem menn steypa sér í vegna þessa ömurlega máls.Svo eru menn hreinlega að kafna í "N'uinu", virðast bara ómögulega geta skilið, að forsendur og staða dagsins í dag muni gilda eftir sjö ár, ef, þegar og hugsanlega ríkið þarf eða neyðist til að gangast við þessari ábyrgð sem felst í samkomulaginu.

Menn virðast bara ekki skilja eða vilja það hreinlega ekki, að allar þessar forsendur og ólögmæti til eða frá, getur ekki átt við um það sem hugsanlega mun gerast eftir sjö ár. Í ofanálag eru menn að velta vöngum fram og til baka um þennan ábyrgðarsjóð og hans stöðu, eins og hún sé einvher ákveðin stærð sem standi í stað. rétt eins og með blessaða stjórnarskrána líka, þá gætum við allt eins staðið frami fyrir þeim nýja sannleik eftir sjö ár, að þessi tvö fyrirbæri væru bara alls ekki til í núverandi mynd og allt annað landslag blasti við. Ef fram sheldur sem horrfir, held ég raunar að það sé líklegra en hitt, að stjórnarsk´ranni hafi allvega verið breytt, stjórnlagaþing hafi verið stofnsett og það búið að semja um breytingar ef ekki bara skrifa nýja stjórnarskrá!

En þetta gengur mönnum hér sem víðar ákfalega ílla að koma auga á og þótt þeir viti lítt eða vilji vita, þá eru þeir samt tilbúnir að fullyrða um svartnætti og ekkert annað en svartnætti!

Magnús Geir Guðmundsson, 14.6.2009 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband