Morgunblaðið kvatt

Ég er alin upp á heimili þar sem Mogginn var keyptur og að loknu stúdentsprófi var ég blaðamaður á Morgunblaðinu um skeið. Leiðir okkar Moggans hafa því lengi legið saman. Undanfarin ár hef ég ekki verið áskrifandi að blaðinu, þó að ég hafi verið með helgaráskrift til skamms tíma.

Morgunblaðið hefur vissulega verið pólitískt málgagn og ég lét einmitt helgaráskriftina fjúka í aðdraganda kosninga, þegar áróðurinn var orðinn einum of yfirþyrmandi. En þrátt fyrir allt hefur verið ákveðinn metnaður í fréttaskrifum á blaðinu og mikill kraftur hefur verið lagður í uppbyggingu á vefnum mbl.is.

Því miður virðast nýir eigendur ætla að fara aðra leið með Morgunblaðið. Kvótakóngarnir sem keyptu Moggann hafa nú sagt upp blaðamanni ársins, ásamt fjölda annarra vandaðra blaðamanna og fjölmiðlafólks. Í staðinn hafa þeir ráðið aflóga pólitíkus í ritstjórastólinn, manninn sem af mörgum er talinn bera einna mesta ábyrgð á íslenskra hruninu.

Ég get ekki sagt upp áskrift að Morgunblaðinu aftur, en ég get sniðgengið mbl.is og hvet aðra til að gera það sama. Því ætla ég að loka þessu bloggi. Ég verð áfram með blogg á blogspot og síðu á Facebook, en mbl.is verður ekki lengur daglegur viðkomustaður í ferðum mínum á netinu.


mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kiknar VG undan álaginu?

Í umræðu um bankahrunið vísa vinstri-grænir gjarnan til þess að þeir hafi verið á móti útþenslustefnu íslensku bankanna og því hvernig staðið var að einkavæðingu þeirra á sínum tíma. Ofvöxtur bankanna er vissulega ein af helstu orsökum þess að núverandi heimskreppa bitnar meira á Íslendingum en flestum öðrum. Ef fleiri hefðu hlustað á viðvaranir vinstri manna og ýmissa sérfræðinga, þar á meðal hagfræðinga og erlendra banka, værum við sennilega í betri stöðu en við erum nú.

Hins vegar breytir afstaða vinstri grænna í fortíðinni ekki þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir hér og nú. Það hjálpar ekkert atvinnulausum einstakling eða fjölskyldu sem er að missa húsnæðið núna að einhver sitji og segi: "Ég sagði ykkur þetta." Sumir þingmenn VG virðast ekki átta sig á því að þeir eru ekki lengur í stjórnarandstöðu, þar sem þeir geta fríað sig allri ábyrgð og verið á móti öllum óvinsælum aðgerðum. Því miður virðist sem einhverjir ráðherrar standi hugsanlega ekki undir þeirri ábyrgð að vera í ríkistjórn.

Það eru alvarlegar fréttir fyrir illa stadda þjóð, ef þingmenn og jafnvel ráðherrar VG þora ekki eða vilja ekki að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir. Bankarnir voru einkavæddir, þeir þöndust of mikið út og hrundu. Við erum í svínslega erfiðri stöðu. Þetta eru einfaldlega staðreyndir málsins. Öll óskhyggja heimsins breytir þeim ekki. Það skiptir engu máli hvað menn sögðu eða gerðu fyrir mörgum árum, þegar úrlausnarefni dagsins í dag þola enga bið.


mbl.is Ríkisstjórn á suðupunkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að lifa í draumi

Þessi frétt Morgunblaðsins er sett upp á afar villandi hátt, því að þingmaður Borgarahreyfingarinnar segir alls ekki að sjálf nefndin sé óttaslegin, heldur telur hún vera hræðsluáróður í áliti meirihlutans, sem er allt annað. Ég held reyndar að þingmanninn skorti hugsanlega raunsæi í þessu máli og fleiri málum. Það hefur án efa alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland ef við ákveðum að gangast ekki við ábyrgð okkar í Icesave málinu. Miðað við málflutning margra í þessu máli virðist fólk almennt ekki gera sér grein fyrir hversu slæm staða okkar er eða hversu mikið verri hún getur enn orðið. Ég efast ekki um að þetta sama fólk myndi kvarta hástöfum og væna stjórnvöld um getuleysi, ef það fengi sínu framgengt og allt færi á versta veg. Það er nefnilega miklu auðveldara að gagnrýna heldur en að koma með lausnir.
mbl.is Óttaslegin utanríkismálanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru valkostirnir?

Ýmsar upphrópanir heyrast frá þeim sem vilja fella Icesave samninginn, en lítið um það hvað á að koma í staðinn. "Við látum ekki fara svona með okkur," segja sumir, en sleppa því að minnast á það hvað á þá að taka við. Barnalegir útúrsnúningar á borð við Iceslave og slagorð um "Pattaya mellur" segja mest um þá sem halda þeim á lofti.

Ég get ekki ímyndað mér að neinn Íslendingur telji Icesave samninginn vera sérstaklega góðan, en kannski var þetta skársti samningurinn sem hægt var að ná. Hefur fólk velt því fyrir sér? Ég hef heyrt marga tala um að það "eigi bara að semja aftur", en það verður auðvitað ekki samið um neitt sem viðsemjendur okkar vilja ekki. Samningar eru ekki einhliða óskalisti íslensku þjóðarinnar. Við höfum viðsemjendur sem geta sagt nei, rétt eins og við.

Hvað er þá eftir? Að fella samningana og hvað svo? Afþakka aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og erlend lán? Leyfa krónunni bara að hrynja? Eða hvað? Ég kalla eftir því að talsmenn þess að samningarnir verði felldir komi með sína framtíðarsýn og þá meina ég ekki upphrópanir, stórkarlalegar yfirlýsingar eða draumóra. Hvaða stefnu vilja þeir taka í staðinn og hvað mun það þýða fyrir nánustu framtíð þjóðarinnar?


mbl.is Telja að ljúka verði Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðun eins íhaldsflokks breytir ekki miklu

Andstæðingar ESB aðildar Íslands stökkva á þessa frétt um andstöðu kristilega íhaldsflokksins CSU og telja hana sýna að ekki sé pláss fyrir Ísland í Evrópusambandinu. Því fer fjarri. Flokkur kristilegra demókrata í Bæjaralandi er ekki flokkur Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, heldur einungis "systurflokkur" í einu fylki Þýskalands. Þetta er erkiíhaldsflokkur sem hefur staðið á móti mörgu sem varðar Evrópumál, án þess að hafa haft erindi sem erfiði. Engar líkur eru á því að flokkur kanslarans eða aðrir stórir hægri flokkar í Evrópu taki almennt undir þessa skoðun.

Staðreyndin er sú að umsókn Íslands um aðild mætir almennt jákvæðum viðbrögðum og ólíklegt að hún fái annað en skjóta og faglega afgreiðslu, enda hefur Ísland í gegnum EES samninginn lagað sig að miklu leyti nú þegar að ESB aðild. Ekkert land utan Evrópusambandsins er í nánari sambandi við ESB en Ísland, enda erum við ekki aðeins í EES heldur erum við líka aðilar að Schengen, sem er skref sem t.d. Bretar hafa ekki enn stigið.

Þetta hefur Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál samsbandsins, margoft staðfest í viðtölum. Nýlega sagði hann í viðtali að umsókn Íslands ætti að geta gengið hratt fyrir sig. Líkti hann stöðu Íslands gagnvart ESB við stöðu maraþonhlaupara sem þegar hefur lagt allt að 40 kílómetra að baki af þeim 42 sem þarf til að koma í mark, á meðal dæmigert Balkanland væri í miðju hlaupi þegar að aðildarumsókn kæmi.


mbl.is Andsnúnir inngöngu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vönduð stjórnsýsla

Ekki erum við Ögmundur Jónasson í sama flokki og ekki er ég honum alltaf sammála. Hins vegar er það alveg ljóst að nauðsynlegt að vanda ákvarðanir af þessu tagi. Svara þarf spurningum á borð við þær hvort að þetta framtak, ef af verður, muni á einhvern hátt bitna á heilbrigðisþjónustu við Íslendinga og hvort að einhver kostnaður geti mögulega fallið á ríkið, ef aðgerðir heppnast ekki eða ef sjúklingur þarf að fara á gjörgæslu. Einnig þarf að tryggja það að þetta sé ekki fyrsta skrefið í allsherjar einkavæðingu heilbrigðiskerfisins á Íslandi.

Ég skil vel að fólk á Suðurnesjum vilji fá vinnu og vissulega þurfum við á peningum að halda inn í hagkerfið, en eitthvað hljótum við Íslendingar hafa lært á bankahruninu varðandi það að kapp sé best með forsjá. Átti ekki Icesave að vera þvílík snilldarlausn, bæði fyrir Landsbankann og þjóðina alla? Bankastjórinn lýsti snilldinni í viðtölum og peningarnir streymdu inn daglega. Hvað gerðist svo?

Það er ekki kommúnismi að vilja kanna hlutina áður en ríkið skrifar undir skuldbindingar sem geta haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar. Það er vönduð stjórnsýsla. Við höfum ekki haft nóg af henni undanfarin ár.


mbl.is Ögmundi stillt upp við vegg?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave blekkingin

Einhverjir virðast halda að það hafi verið eitthvað val hjá okkur Íslendingum að taka ábyrgð á innistæðum Icesave-reikninga Landsbankans. Þeir sömu hafa haldið því fram að við ættum að neita að borga. Jafnvel hafa fallið gífuryrði um landráð og svik. En allt þetta tal er blekking ein.

 Þeir sem halda þessu fram eru annað hvort að tala gegn betri vitund, eða hafa ekki kynnt sér málin nægilega vel. Innlánastarfsemi Landsbankans fór fram í útibúum bankans á Bretlandseyjum og í Hollandi. Ekki var um dótturfélög að ræða. Innlán í íslenskum bönkum eru tryggð samkvæmt íslenskum lögum, hvort sem um er að ræða íslensk eða erlend útibú bankanna.

Í íslenskum lögum um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta segir að eftirfarandi séu aðilar að sjóðnum: "Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafa staðfestu hér á landi, skulu eiga aðild að sjóðnum. Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum."

Ein meginregla íslensks réttarfars er jafnræðisreglan, sem tryggð er í stjórnarskrá lýðveldisins. Þar segir í 65. grein: "Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."

Þeir sem halda því fram að íslenska ríkið eigi enga ábyrgð að bera gagnvart innistæðueigendum í sumum útibúum Landsbankans en ekki öðrum, eru í andstöðu við hvort tveggja, lög um innistæðutryggingar og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þeir sem vilja ekki borga eru í raun að hvetja til þess að stjórnarskráin verði brotin.


mbl.is Erfitt að skrifa undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að verja gengi krónunnar

Sumir hafa látið þung orð falla vegna vonbrigða sinna yfir lækkun stýrivaxta um eitt prósentustig. Skýringar Seðlabankans eru hins vegar mjög einfaldar: "Með því að gæta varúðar við slökun peningalegs aðhalds gefst færi á að afnema gjaldeyrishöftin án þess að stöðugleika krónunnar sé stefnt í tvísýnu."

Markmið peningarstefnunnar er að verja gengi krónunnar, enda myndi frekara hrun hennar hafa gríðarlega slæm áhrif á heimili jafnt sem atvinnulíf. Verð á innfluttum vörum myndi hækka með tilheyrandi hækkun verðbólgu, auk þess sem gengistryggð lán hækka. Mörg fyrirtæki eru með stóran hluta skulda sinna í erlendum gjaldmiðlum og því yrðu afleiðingarnar alvarlegar fyrir atvinnulífið.

Síðan má ekki gleyma því að verðbólguhraðinn í maí mældist 1,13% sem er um 14% á ársgrundvelli. Tólf mánaða verðbólgan aftur í tímann er 11,6% og við þær aðstæður eru 12% stýrivexir að mörgu leyti skiljanlegir. Hlutverk peningastefnunnar er ekki síst að verja gengið og koma í veg fyrir kollsteypur. Því er skiljanlegt að reynt sé að vinda ofan af hávaxtastefnunni með gát. Stýrivextir munu halda áfram að lækka og verða vonandi komnir í sæmilegt horf síðar á árinu.


mbl.is Vextir lækkaðir í 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvöllur efnahagslegs stöðugleika

Aðildarumsókn að Evrópusambandinu er mikilvægur grundvöllur efnahagslegs stöðugleika. Þetta sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, á Alþingi í dag. Umsóknin gefur skýr skilaboð til umheimsins varðandi það hvert við stefnum í endurreisn íslensks samfélags og er til þess fallin að auka tiltrú á íslensku efnahagslífi.

Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, sagði að í dag væri sögulegur dagur á Alþingi og það er alveg rétt hjá honum. Þetta er merkilegri og sögulegri stund en margir gera sér grein fyrir. Í fyrsta sinn er innganga í ESB rædd af alvöru á Alþingi og studd af þingmönnum bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu.

Ef Íslendingar sækja um aðild að Evrópusambandinu í sumar eða haust, gætum við verið komin í ESB þegar í byrjun ársins 2012 og jafnvel fyrr. Finnar sóttu um aðild árið 1992, gengu inn í byrjun ársins 1995 og landið varð eitt af stofnaðilum EMU, myntbandalagsins, árið 1999. Þegar Finnar sóttu um aðild árið 1992 stóðu þeir í svipuðum sporum og Íslendingar standa nú. Þeir voru í miðri kreppu, sem var ein sú versta sem finnska þjóðin hafði upplifað á 20. öldinni.

Finnskt efnahagslíf óx hratt fyrstu árin eftir inngönguna í ESB og Finnar telja að aðildin hafi þar haft mikið að segja. Matarverð lækkaði verulega og samkeppni jókst á markaði. Finnsk fyrirtæki sem eiga viðskipti við evrusvæðið þurfa ekki lengur að eiga við gengisáhættu. Vextir hafa lækkað og velmegun aukist.

Íslendingar geta notið sömu kosta af inngöngu í Evrópusambandið, ef Alþingi ber gæfu til þess að samþykkja þingsályktunartillögu um að Ísland gangi til viðræðna við Evrópusambandið. Þetta er eitt mikilvægasta mál sem rætt hefur verið á Alþingi hin síðari ár. Vonandi komast þingmenn upp úr skotgröfunum og vinna saman að bjartari framtíð lands og þjóðar.


mbl.is Hægt að ná samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrann hefur rétt fyrir sér

Þrátt fyrir allt, þá ættu flestir að hafa efni á því að borga af lánunum sínum. Vissulega er 9% atvinnuleysi, en það þýðir líka að yfir 90% eru enn með vinnu. Atvinnulausir sem eru með lán hjá Íbúðalánasjóði geta þar fyrir utan fengið allt að þriggja ára frystingu á lán sín og þurfa ekki að borga afborganir af þeim á meðan.

Þeir sem tóku húsnæðislán í erlendri mynt eru sennilega verst staddir, en mikill meirihluti íbúðareigenda er með lán í íslenskum krónum. Hópnum með erlendu lánin hefur staðið til boða frysting á lánunum og einnig greiðslujöfnun, þar sem lánið er lengt og afborganir lækkaðar.

Afborganir af verðtryggðum lánum hafa vissulega hækkað, en þó ekki svo mikið að það eigi að skipta sköpum fyrir fjölskyldur sem veðsettu sig ekki um of. Afborgun af 18 milljón króna láni var um 10 þúsund krónum hærri á mánuði í lok síðasta árs en hún var í janúar 2008. Þetta er ekki upphæð sem ætti að setja meðalfjölskylduna á höfuðið, á meðan fólk heldur vinnunni.

Það er ekki gaman að horfa á eignina í íbúðinni lækka dag frá degi, en á meðan búið er í íbúiðinni er mögulegt söluverð í raun bara tala á blaði og breytir ekki öllu. Örugglega eru einhverjir sem tóku há, verðtryggð lán hjá bönkunum og eru í vandræðum með að greiða af þeim, en þeim verst stöddu stendur til boða greiðsluaðlögun. Það heimskulegasta sem hægt er að gera er að hætta að borga með tilheyrandi kostnaði, og í raun ábyrgðarhluti að hvetja til þess.


mbl.is Flestir geta staðið í skilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband