Kynjakvóti eða kvennakvóti?

Það er sérstaklega ánægjulegt að Siv Friðleifsdóttir hafi sigrað í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Siv hefur verið ötull talsmaður jafnréttis á Alþingi og hefur hún sérstaklega barist fyrir auknum hlut kvenna í stjórnmálum. Ekki er það síður merkilegt að konur hafi hafnað í fimm efstu sætum prófkjörsins.

Nú er kynjakvóti viðhafður í mörgum flokkum og samkvæmt reglum Framsóknarflokksins verða tvær af þessum fimm konum að færast niður listann. Einnig virðist sem einhverjar konur verði að færast niður á listum vinstri grænna í Reykjavík, miðað við úrslitin þar. Þar urðu þrjár konur í þremur efstu sætunum, þannig að þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir munu leiða lista í Reykjavíkurkjördæmunum. Ef reglum um fléttulista verður beitt verður Lilja Mósesdóttir ekki í öðru sæti í öðru kjördæminu, heldur mun hún færast niður listann.

Konur voru rétt um þriðjungur þingmanna eftir síðustu Alþingiskosningar og þeim fækkaði frá kosningunum þar á undan. Enginn flokkanna var með jafnt hlutfall kynjanna í þingflokknum, en VG komst þó næst því þar sem 44% þingmanna flokksins voru konur. Hjá hinum flokkunum voru konur um þriðjungur, nema hjá Frjálslyndum sem hefur verið hreinræktaður karlaflokkur á þingi.

Ísland er ekkert sérstaklega framarlega hvað varðar hlutfall kvenna á þingi. Svíþjóð, Finnland og Danmörk hafa öll verið með hærra hlutfall kvenna á þingi en við, einnig Noregur, Holland, Belgía, Spánn og fleiri lönd. Spurningin er hvort að það sé rétt að beita kynjakvóta til þess að færa konur neðar á lista, þegar staðan er þannig að þær eru í miklum minnihluta á þingi? Er kynjakvótinn til þess að jafna hlutföll kynjanna á hverjum lista, eða er hann til þess að jafna hlutföll kynjanna á þingi?

Það er að minnsta kosti eitt fordæmi fyrir því að kynjakvóta var ekki beitt hjá VG í síðustu kosningum, þar sem reglur kröfðust þess að færa ætti konu niður listann. Ef við lítum á hlutfall kynjanna á þingi tel ég rökrétt að beita kynjakvótanum ekki til þess að færa konur niður lista. Þegar hlutfall kynjanna er orðið jafnt á Alþingi er hægt að beita kynjakvótanum jafnt á bæði kyn, en ekki fyrr.


mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kynjakvóti er alltaf óheppilegur, en kynjakvóti sem virkar aðeins í aðra áttina, þ.e. til að ryðja konum ofar á lista en kjósendur vilja, það er ömurlegt fyrirbrigði og ætti með réttu að kallast píkufasismi.

drilli (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 18:09

2 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Það er þín skoðun, þó að orðbragðið sé þér og þinni skoðun reyndar lítt til framdráttar. En þá erum við aftur komin að spurningunni um tilgang kynjakvótans.

Ef tilgangur kynjakvótans er að jafna hlut kynjanna á Alþingi, þar sem konur hafa verið í miklum minnihluta, þá segir það sig sjálft að það er ekkert vit í því að nota hann til að ýta konum neðar á listann. Þá er kynjakvótinn að vinna gegn tilgangi sínum.

Svala Jónsdóttir, 8.3.2009 kl. 21:46

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jákvæð mismunun hefur þetta verið nefnt ekki satt? Er hlynntur henni almennt séð og ef einstakir flokkar eða stjórnvald vilja beita henni til leiðréttingar. Ef menn telja að slíkt hafi áhrif sem og lögboð eins og í Noregi, að lögbinda hlutfall milli kynjanna í stjórnum og ráðum minnir mig, á ekki að hika við það.

Magnús Geir Guðmundsson, 9.3.2009 kl. 17:17

4 identicon

orðbragð eða ekki orðbragð breytir ekki þeirri staðreynd að ef ákveðið er fyrirfram að atkvæði sumra eigi að vega þyngra en annarra þegar að kosningum kemur þá er neikvæð mismunun betri lýsing en jákvæð mismunun. Trúarbrögð kannski ?

drilli (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 21:50

5 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Drilli, það er verið að tala um prófkjör, ekki kosningar. Gerólíkir hlutir. Sé ekki hvað þetta kemur trúarbrögðum við.

Svala Jónsdóttir, 10.3.2009 kl. 13:01

6 identicon

prófkjör jájá, en enn eru kosningalög á þann veg að röðun á lista Í PRÓFKJÖRI ráða mestu um hverjir á viðkomandi lista komast á þing, útstrikanir hafa hverfandi áhrif og fólk því notað það lítið, það er staðreynd sem blasir við. Trúarbrögð nefni ég í hálfkæringi og þó. Þegar eigin markmið er svo brennandi í huga fólks að tilgangurinn helgar meðalið hvað sem það meðal kann að vera, jafnvel að ganga á skjön við lýðræðisleg vinnubrögð þá er fnykur af aðferðunum eins og öðru ofstæki. AMEN 

drilli (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband