Fórnarkostnaður krónunnar

Stóran hluta af þeirri kreppu sem við Íslendingar erum að ganga í gegnum núna má rekja til krónunnar. Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hefur bent á þá staðreynd, að fórnarkostnaður krónunnar er meðal annars hærri vextir og miklar sveiflur í efnahagslífinu.

Þetta kom skýrt í ljós á árunum 2001-2007, eftir að krónan var sett á flot og verðbólgumarkmið voru tekin upp hjá Seðlabankanum. Fáir eða engir gjaldmiðlar sveifluðust á þessu tímabili jafn mikið gagnvart evrunni og íslenska krónan. Vaxtamunur við útlönd var líka mikill og sveiflukenndur, allt að 11%. Þetta erum við Íslendingar að borga fyrir að halda krónunni og þessi vaxtamunur varð líka til þess að hingað streymdi erlent fjármagn og ýtti undir þensluna, sem endaði í bankahruni.

Í erindi sínu á umræðufundi SA um gjaldeyrismál fyrir rúmu ári síðan, sagði þáverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans sem nú er settur aðstoðarbankastjóri sama banka, að eini raunverulegi valkosturinn við krónuna væri upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu. Hann sagði að sjálfstæðum gjaldmiðli í litlu ríki eins og Íslandi fylgdi "umtalsverður fórnarkostnaður" og nefndi þar meðal annars vaxtamun, gengisóvissu, minni utanríkisviðskipti og fjármálalegan óstöðugleika, Þá viðurkenndi hann að gengissveiflur hefðu aukist eftir að krónan fór á flot.

Aðstoðarbankastjórinn sagði sveigjanlegt gengi mildaði ekki sveiflur í efnahagslífinu og að reynsla Íslendinga frá árinu 2001 sýndi hið gagnstæða. Hann sagði að það þyrfti sterk rök til þess að halda sjálfstæðum gjaldmiðli ef annarra kosta er völ. Þau rök hafa ekki komið fram, önnur en tilfinningarök byggð á þjóðerniskennd.

Við höfum tvo valkosti: Að vera áfram með krónuna, sætta okkur við háa vexti og miklar sveiflur í efnahagslífinu með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og atvinnustig, eða að taka upp evruna. Aðrir möguleikar, eins og upptaka norsku krónunnar eða dollars, eru einfaldlega ekki raunhæfir og þeir gera ekki annað en að drepa nauðsynlegri umræðu á dreif.


mbl.is Evruupptaka hefði áhrif í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Fólk má vissulega vera þjóðernissinnað í lýðræðislegu samfélagi, en þjóðerniskennd kemur ekki í staðinn fyrir efnahagsleg rök.

Helsti galli krónunnar er hvað hún er lítil og óstöðug. Helsti kostur eigin gjaldmiðils er að hægt er að fella eða styrkja gengið í samræmi við stöðu innlends efnahagslífs. Seðlabankinn getur stjórnað vaxtastigi, peningaprentun o.s.frv.

Ef við tökum upp aðra mynt missum við þessi stjórntæki. Ef við tökum upp evru fáum við á móti stærri og sterkari gjaldmiðil, og losum okkur um leið við stóran hluta af gengisáhættunni þar sem mikill hluti af inn- og útflutningi okkar er í evrum og við evrusvæðið.

Ef við hins vegar tökum upp norsku krónuna, missum við stjórntækin og fáum alla gallana, en EKKI alla kostina sem við fáum með evrunni. Peningastefnan, seðlaútgáfa og vaxtaákvarðanir flyttust einfaldlega til Osló í stað Seðlabanka Evrópu. Allar ákvarðanir varðandi peningastefnuna yrðu teknar með norska, en ekki íslenska hagsmuni í huga. Kostirnir umfram evruna eru því engir, ekki heldur frá þjóðernissjónarmiði.

Gallar norsku krónunnar umfram evruna eru hins vegar talsverðir. Gengisáhættan gagnvart evru væri enn til staðar, en inn- og útflutningur okkar til evrusvæðisins er margfaldur á við utanríkisviðskipti okkar við Noreg. Norska krónan sveiflast einnig í takt við verð á olíu, sem er andstætt íslenskum hagsmunum. Hækkandi olíuverð hefur í för með sér aukinn hagnað fyrir Noreg, sem er olíuland, en eingöngu aukinn kostnað á Íslandi sem hefur neikvæð áhrif, sérstaklega hvað varðar sjávarútveginn.

Sveiflurnar í efnhagslífi landanna eru því líklegar til þess að vera mjög ólíkar ef og peningastefna norska Seðlbankans því óhentug fyrir Ísland. Auk þess hefur norski forsætisráðherrann og fleiri forsvarsmenn norsku stjórnarinnar slegið þennan möguleika út af borðinu aftur og aftur. Þetta er einfaldlega óraunhæft á alla kanta.

Svala Jónsdóttir, 3.3.2009 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband