Ánægja með ríkisstjórnina

Meirihluti þjóðarinnar er ánægður með ríkisstjórnina, samkvæmt könnunum. Það endurspeglast síðan í því að færri eru að mótmæla en áður, sem er jákvætt í mínum huga. Fólk vildi nýja ríkisstjórn, nýja yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, og það fékk því framgengt. Ég fór á tvo fundi í gær, en ekki mótmælafundi, heldur fór ég með góðum hópi að hitta Samfylkingarfólk á Dalvík og á Akureyri. Það var mjög gaman og sérstaklega ánægjulegt fyrir mig að fara héðan frá Akureyri til Dalvíkur og spjalla við fólk þar. Þau málefni sem fólk nefndi aftur og aftur voru samgöngumálin, hár flutningskostnaður og svo auðvitað efnahagskreppan og afleiðingar hennar. Samgöngumálin hafa sjaldan verið jafn mikilvæg fyrir landsbyggðina og nú. Fólk sem hefur misst vinnuna getur ekki sótt nýja vinnu í næsta sveitarfélagi, ef samgöngur eru ótryggar. Þó að ríkisstjórnin sé vinsæl í augnablikinu má hún ekki slaka á, heldur verður stöðugt að hlusta á fólkið í samfélaginu. Við förum á Egilsstaði í dag og ég á von á því að það verði ekki síður áhugavert og fræðandi.
mbl.is Fáir þátttakendur í mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð niðurstaða

Ekki myndi ég kjósa Bjarna Benediktsson sem formann míns flokks, en ég er heldur ekki í Sjálfstæðisflokknum. Andstæðingar Samfylkingarinnar hafa hamast á Ingibjörgu Sólrúnu og því miður hafa einhverjir, sem þó teljast vera í flokknum, tekið undir með þeim. Þetta er góð lausn og niðurstaða sem allt alvöru jafnaðarfólk getur stutt. Við fáum að njóta áfram okkar framsýna formanns, sem stóð að stofnun þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd og útnefndi Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherraefni. Jafnframt fáum við að njóta áfram starfskrafta og forystu Jóhönnu, eins afkastamesta þingmanns og ráðherra sem hefur starfað í íslenskum stjórnmálum. Ég hefði ekki verið sátt ef Ingibjörg Sólrún hefði ákveðið að hætta núna og mér dettur ekki í hug að styðja einhverja lukkuriddara, sem vilja ýta henni til hliðar.
mbl.is Ingibjörg býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei mikilvægara

Sjaldan eða aldrei hefur það verið mikilvægara en nú að hafa fólk við stjórnvölinn sem er vakið og sofið yfir velferðarmálunum. Þegar að kreppir þarf að tryggja það að niðurskurður bitni ekki á þeim sem síst skyldi. Oft er tilhneiging til þess að afskrifa konur í stjórnmálum fyrr en karla, en það eru mistök. Núverandi forsætisráðherra er kona sem er að verða 67 ára á árinu, kona sem er duglegri og krafmeiri en margir sem eru helmingi yngri. Þegar ég heyrði að Jóhanna yrði líklega forsætisráðherra, var mín fyrsta hugsun að ég vildi helst ekki missa hana úr félagsmálaráðuneytinu. En þegar nafn Ástu Ragnheiðar var nefnt í tengslum við starf ráðherra félags- og tryggingamála, vissi ég að það var óþarfi að hafa áhyggjur. Við Ásta unnum saman hjá Tryggingastofnun ríkisins þar til hún fór á þing, en hún var þar deildarstjóri fræðslu- og útgáfudeildar. Fáir hafa jafn víðtæka þekkingu á velferðarmálunum og Ásta, og fáir hafa unnið jafn stöðugt og örugglega og hún að þeim málaflokki á Alþingi. Við þurfum fólk eins og hana á þing.
mbl.is Ásta stefnir á 4. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök og verðbólgumarkmið

Eitt af því fáa markverða í langri varnarræðu Davíðs Oddsonar í Kastljósinu í gær, var að hann viðurkenndi loksins að Seðlabankinn hafi gert mistök með því að leggja of mikla áherslu á ná niður verðbólgu en minni áherslu á það að tryggja að gengi krónunnar yrði ekki of hátt.

Fyrir átta árum var horfið frá þeirri stefnu að stjórn peningamála miðaðist við gengið og þess í stað ákveðið að gera verðbólgumarkmið að meginatriði stefnunnar. Jafnframt var gengi krónunnar látið fljóta og Seðlabankanum gefið frelsi til þess að ákveða stýrivexti til þess að ná verðbólgumarkmiðinu. Forsætisráðherra og bankastjórn Seðlabanka Íslands undirrituðu í mars 2001 yfirlýsingu um breytt fyrirkomulag stjórnar peningamála. Hver var svo forsætisráðherrann sem undirritaði samkomulagið og stóð fyrir þessum breytingum? Enginn annar en Davíð Oddsson. Hann sagði í ræðu sem haldin var á ársfundi Seðlabankans 2001 að hann væri "sannfærður um að þessar breytingar munu reynast heilladrjúgar fyrir land og þjóð."

Skemmst er frá því að segja að breytingar Davíðs Oddsonar á peningamálastefnunni hafa reynst þjóðinni allt annað en heilladrjúgar. Markmið Seðlabankans var að árleg verðbólga, miðuð við tólf mánaða vísitölu neysluverðs, yrði sem næst 2,5%. Þolmörk verðbólgumarkmiðsins voru rofin strax í júní 2001 og verðbólgan á árinu mældist 9,4%. Á þeim átta árum sem liðin eru frá því að peningamálastefnunni var breytt hefur Seðlabankinn oftast verið langt frá því að ná verðbólgumarkmiðum sínum, þrátt fyrir ítrekaðar spár um hið gagnstæða. Evrópumet í stýrivaxtahækkunum breytti engu og gerði jafnvel illt verra. Nú mælist verðbólgan 17,6%.

Aðalhagfræðingur Seðlabankans viðurkenndi mistök í stefnu bankans í erindi sem hann flutti í málstofu viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands í maí 2008. Hann sagði að Seðlabankinn hefði ekki náð viðunandi árangri í baráttu sinni við verðbólguna og viðurkenndi að Seðlabankinn hefði ofmetið áhrif stýrivaxta í umhverfi þar sem mikið framboð var á erlendu lausafé.Viðtalið við Davíð í gær gerði ekki annað en að ítreka enn frekar hversu nauðsynlegt það er að koma í gegn breytingum á Seðlabanka Íslands og yfirstjórn hans. Peningastefnan sem Davíð Oddsson kom á fót hefur brugðist. Nú er kominn tími til þess að læra af mistökunum og marka skýrari stefnu til framtíðar. Það þolir enga bið.


mbl.is Aukin bindiskylda hefði engu máli skipt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt

Það er ýmislegt merkilegt við þessa kosningu í VR, ekki síður það sem ekki er nefnt í fréttinni. Konur eru nærri 60% félagsmanna VR, en karlar um 40%. Samt er engin kona í framboði til formanns, heldur bítast þrír karlar um embættið. Eins og hefðin býður hafa konur gegnt starfi ritara og varaformanns í þessu aldna félagi, en kona hefur aldrei verið formaður VR þó að konur hafi verið meirihluti félagsmanna í talsverðan tíma. Eflaust munu einhverjir segja að það skipti engu máli, þar sem það sé aðeins hæfni sem eigi að ráða. Hins vegar má spyrja sig hvort að hæfni hafi ráðið vali á forystumönnum hingað til. Í öllu falli er það athyglisvert að félagsgjöld kvenna, sem margar hverjar þiggja laun samkvæmt lágmarkstöxtum, fari í það að halda uppi karlkyns verkalýðsforkólfum sem fá margföld laun á við umbjóðendur sína. Þetta á ekki aðeins við um VR, heldur mörg önnur slík félög. Auðvitað er kyn ekki það eina sem skiptir máli, en það er mikil einfeldni að halda að það skipti engu máli.
mbl.is Sögulegar kosningar hvernig sem fer
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innlegg í prófkjörsbaráttu?

Mér finnst í meira lagi athyglisverð sú kenning að þetta sé innlegg Höskuldar í prófkjörsbaráttu hans og Birkis Jóns hér í Norðausturkjördæmi. Er það í rauninni svo, að Framsóknarmenn telji hagsmunum sínum best borgið í faðmi Sjálfstæðisflokksins? Orð flokksformannsins gegn Samfylkingunni í nýlegum viðtölum og nú þessi afstaða þingmannsins með Sjálfstæðismönnum vekja alvarlegar efasemdir um heilindi Framsóknarmanna í stjórnarsamstarfinu. Það yrði óneitanlega kaldhæðnislegt, ef eini afrakstur búsáhaldabyltingarinnar verður endurnýjun blágræns ríkisstjórnarsamstarfs helmingaskiptaflokkanna. Við megum ekki láta það gerast.
mbl.is Framsókn skekur ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggjum mannréttindi

Það er alveg rétt hjá bandaríska blaðamanninum að fólk er ekki pakkar. Það er ekki hægt að skila innflytjendum eins og gallaðri vöru þegar harðnar á dalnum hér heima. Jonas hefur lagt mikið á sig að aðlagast íslensku samfélagi, lært íslensku og keypt hér íbúð og bíl, auk þess sem hann er í sambúð með Íslendingi. Hann fékk höfnun frá Alþingi varðandi ríkisborgararétt, þó að aðrir hafi fengið slíka fyrirgreiðslu eftir styttri búsetu hér. Jafnvel þó að hann gifti sig íslenskum unnusta sínum er réttur hans til búsetu ekki tryggður. Þessu verður að breyta. Ég minni á landsfundarályktun Samfylkingarinnar frá 2007 um mannréttindi í verki, þar sem segir m.a. að Samfylkingin vilji beita sér fyrir því að atvinnuleyfi fólks af erlendum uppruna verði bundið persónulega við viðkomandi einstakling en ekki vinnustað og vinnuveitanda, þó þannig að skyldur atvinnurekandans séu hinar sömu og áður. Einnig segir þar að Samfylkingin vilji tryggja jafna stöðu útlendinga á vinnumarkaði. Þessi ályktun má ekki verða orðin tóm. Núverandi stjórn á ekki eftir langa setu, en hér er þó tækifæri til þess að breyta lífi fólks til hins betra og það ætti ekki að fara forgörðum.
mbl.is Farðu heim, góði minn!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt

Það er sorglegt að sjá hvað innanflokksátök virðast leika suma stjórnmálamenn grátt, sérstaklega í kringum prófkjör. Margir halda fast í þá trú að opin prófkjör séu "lýðræðislegasta" leiðin til þess að velja fólk á framboðslista. Samt er það hálf öfugsnúið ef íslenskir stjórnmálamenn eyða mestu púðrinu í baráttu innan eigin flokks, en ekki í það að berjast fyrir sameiginlegri stefnuskrá eða velferð borgaranna. Einhvern veginn tekst fólki víða erlendis að búa við ágætis lýðræði, án þess að opin prófkjör á íslenskan máta séu þar viðhafin. Ég hef verulegar efasemdir um ágæti prófkjörsleiðarinnar. Hún virðist til dæmis oft ekki skila konum sama árangri og körlum, auk þess sem fjármagn spilar þarna stórt hlutverk. Finnst fólki það virkilega lýðræðislegt ef einstaklingar þurfa að eyða stórfé til þess að eiga möguleika í stjórnmálum?
mbl.is Enginn lagt meira á sig fyrir sæti á lista en Guðlaugur Þór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengt í hengingarólinni

Flestir eru að kaupa sína fyrstu fasteign eftir tvítugt eða síðar. Fæst verðum við 100 ára. Þetta þýðir að þeir sem velja þennan kost myndu líklega falla frá ógreiddum húsnæðislánum og erfingjarnir þá sitja uppi með skuldirnar. Fyrir utan það að fólk væri að borga af húsnæðislánum sínum langt fram á ellilífeyrisaldur, þegar tekjurnar eru minni og erfitt að standa straum af háum greiðslum. Munurinn á mánaðarlegum afborgunum af 25 og 40 ára láni er hverfandi, en munurinn á heildargreiðslu er gríðarlegur. Ég get ekki ímyndað mér að konurnar í Frjálslynda flokknum hafi reiknað dæmið til enda, því þá væru þær ekki að leggja þetta til. Þarna væri aðeins verið að lengja í hengingaról almennings, í stað þess að koma með raunverulegar lausnir.
mbl.is Vilja að lánstími verði tvöfaldaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfileg vinnubrögð

Hvað sem okkur finnst um hvalveiðar, þá er ljóst að löggjöfin um þær er úrelt. Það er alveg rétt hjá Ástráði. Reyndar er ég á móti hvalveiðum og deili áhyggjum Samtaka ferðaþjónustunnar varðandi afleiðingar veiðanna á orðspor Íslands og á ferðaþjónustuna. Umræða um Ísland erlendis hefur mikið til verið neikvæð eftir hrun bankanna, en þó hafa komið jákvæðar fréttir inn á milli og þá helst um Ísland sem vænlegan áfangastað ferðamanna. Hrun krónunnar hefur gert verðlag á Ísland viðráðanlegra fyrir erlenda ferðamenn. Sú ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að auka hvalveiðikvóta gríðarlega getur eyðilagt margra ára vinnu sem hefur miðað að því að kynna Ísland sem ferðamannaland erlendis. Vinnu, sem gæti loksins farið að skila sér margfalt núna, þegar Ísland er orðið ódýrara fyrir þorra ferðamanna. Það er líka verið að taka mikla áhættu varðandi sölu á öðrum afurðum Íslendinga, til að mynda fiski, ef hvalveiðarnar komast í hámæli og mótmæli gegn þeim verða mikil. Svo ekki sé minnst á dýraverndunarsjónarmiðin. Hættan er sú að menn fórni meiri hagsmunum fyrir minni og það geti tekið mörg ár að bæta úr skaðanum, jafnvel þó að hvalveiðum verði hætt.
mbl.is Greiðfært að semja ný lög um hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband