Ráðherrann hefur rétt fyrir sér

Þrátt fyrir allt, þá ættu flestir að hafa efni á því að borga af lánunum sínum. Vissulega er 9% atvinnuleysi, en það þýðir líka að yfir 90% eru enn með vinnu. Atvinnulausir sem eru með lán hjá Íbúðalánasjóði geta þar fyrir utan fengið allt að þriggja ára frystingu á lán sín og þurfa ekki að borga afborganir af þeim á meðan.

Þeir sem tóku húsnæðislán í erlendri mynt eru sennilega verst staddir, en mikill meirihluti íbúðareigenda er með lán í íslenskum krónum. Hópnum með erlendu lánin hefur staðið til boða frysting á lánunum og einnig greiðslujöfnun, þar sem lánið er lengt og afborganir lækkaðar.

Afborganir af verðtryggðum lánum hafa vissulega hækkað, en þó ekki svo mikið að það eigi að skipta sköpum fyrir fjölskyldur sem veðsettu sig ekki um of. Afborgun af 18 milljón króna láni var um 10 þúsund krónum hærri á mánuði í lok síðasta árs en hún var í janúar 2008. Þetta er ekki upphæð sem ætti að setja meðalfjölskylduna á höfuðið, á meðan fólk heldur vinnunni.

Það er ekki gaman að horfa á eignina í íbúðinni lækka dag frá degi, en á meðan búið er í íbúiðinni er mögulegt söluverð í raun bara tala á blaði og breytir ekki öllu. Örugglega eru einhverjir sem tóku há, verðtryggð lán hjá bönkunum og eru í vandræðum með að greiða af þeim, en þeim verst stöddu stendur til boða greiðsluaðlögun. Það heimskulegasta sem hægt er að gera er að hætta að borga með tilheyrandi kostnaði, og í raun ábyrgðarhluti að hvetja til þess.


mbl.is Flestir geta staðið í skilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl.

Þú ert greinilega ekki alveg með á nótunum.

Ert eins og Jóhanna og Gylfi; ekki vel kunnug högum fólks. Svo einfalt er það.

Virðingarfyllst, Valdemar Ásgeirsson.

Valdemar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 19:29

2 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Já er það? Er eitthvað rangt í því sem ég skrifaði? Er það rangt að mikill meirihluti fólks sé með verðtryggð húsnæðislán? Er það rangt að atvinnuleysi sé 9%? Er það rangt að afborgun á dæmigerðu verðtryggðu húsnæðisláni hafi hækkað um 10 þúsund krónur á mánuði?

Endilega bentu á það sem er rangt íi stað þess að koma með svona fullyrðingar út í loftið.

Svala Jónsdóttir, 3.5.2009 kl. 19:31

3 Smámynd: Ellert Júlíusson

Ég leyfi mér að spyrja mig reglulega hvers vegna ég borga af lánum sem að mér voru veitt á sínum tíma. Forsendur þessara lána eru löngu brostnar, og sú staðreynd að ég geti enn borgað breytir engu um það mál. Nú grasserar spillingin sem aldrei fyrr, gjaldþrota auðjöfrar virðast samt hafa bolmagn til að bjóða í rjúkandi rústir fyrirtækja sem þeir sjálfir hafa sogið allan arð úr og komið á hausinn. Mér verður óglatt.

Þetta er svona svipað að Ellert ehf hefði keypt íbúðina mína á 15m, rifið úr henni allar innréttingar, selt þær mér hagnaði, leigt hana út á okurverði í ár, gert sig gjaldþrota, fengið skuldirnar felldar niður og væri nú að kaupa hana aftur á 2millur.

Staðreyndin er sú að fæstum líkar það að vera settir í átthagafjötra, líkt og breskir leiguliðar á jörðum aðalsmanna. Ég keypti mér íbúð (ódýra) fyrir nokkrum árum og var það alveg í samstarfi við bankann, Hann sagði mér hvað ég gæti keypt dýrt og staðið í skilum við stórt lán. Þetta var miðað við að ég neitaði að hafa ábyrgðarmenn. Ég tók Íslenskt lán á jöfnum afborgunum og var ég því í byrjun að borga mun meira en annars hefði verið. Þetta gerði ég því mér var lofað að afborgunin myndi þá byrja að lækka strax á fyrsta árinu.

Núna 4 árum síðar hefur afborgunin hækkað um 25.000kr, lánið um 3 milljónir (sem fara aldrei) og íbúðin lækkað um svona 5 milljónir, allar forsendur brotnar og ég kominn í ört stækkandi hóp einstaklinga sem hreinlega neita að sætta við þetta ástand lengur þrátt fyrir að geta enn borgað brúsann fyrir glæpahundana sem nú sötra kokteila og sóla sig á Tortola.

Það er augljóst að þetta er byrjað að skapa titring hjá okkar háu herrum, því að ef þeir sem eru í raun að bera byrðina núna, fólk sem enn getur borgað af ránslánunum fylkist saman og krefst réttlætis, þá er ballið búið og þeir gæti jafnvel þurft að koma með önnur úrræði en að lengja í hengingarólinni, og maður þorir varla að segja það, en þeir gæti jafnvel þurft að finna út hverjir eiga sök á þessu og refsa þeim.

Þangað til að við hættum að vera sauðfé þá mun ekkert breytast.

Ellert Júlíusson, 3.5.2009 kl. 19:44

4 identicon

Veruleikafyrringin er mikil hér því miður. Það er ekki rétt að það sé lítill hópur sem er í greiðsluvanda og ekki bara þeir sem eru það óheppnir að missa vinnuna eða með erlend lán. Ég ætla að taka dæmi af mér með 5 manna fjölskyldu og maðurinn minn er iðnaðarmaður og sl. 2-3 ár verið meðaltali með 500 þús á mán í vasann. Núna er ekkert að gera og hann heppinn ef hann nær 200 þús á mán í vasann. Launin mín hafa lækkað vegna yfirvinnubanns og eru í kringum 140 þús útborgað núna. Við erum búinn að selja annan bílinn og skera niður neyslu mikið. Við erum ekki með erlend lán en borgum 130.000 á mán af íbúðinni. Þá er eftir matur, hiti, rafmagn, sími, bensín og nauðsynjar fyrir börnin. Ég fer ekki lengur í klippingu og strípur og leyfi mér engan munað. Kaffihúsaferðir, leikhús, út að borða er ekki lengur í boði hvað þá að fara til útlanda. Við hvorki reykjum né drekkum. Staða okkar er ágæt miðað við marga en ég kýs mér og börnunum ekki líf þar sem engin munaður er í boði. Nýustu áhyggjur mínar er hvernig við ætlum að borga fyrir tónlistarnám krakkana í haust því ég veit að tekjur mannsins míns lækka frekar en hækka.

Þetta sem ráðherrann sagði í dag minnir mig bara á þegar Davíð Oddson sagði biðraðir hjá mæðrastyrknefnd segði ekkert um fátækt því alls staðar þar sem eitthvað væri ókeypis væru biðraðir. Þetta er álíka veruleikafyrring hjá Gylfa og Davíð. 

Guðrún Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 20:16

5 identicon

Fjöldi fólks sem er í fullri vinnu og rúmlega það er komið á þá stöðu að það er sama hvað það reynir endarnir ná einfaldlega ekki saman.  Að einblína einvörðungu á það hversu margir eru atvinnulausir og hversu mikið vertryggð lán hafa hækkað er bara hálfur sannleikurinn.

Laun hafa lækkað, framfærslukostnaður stórhækkað sem þýðir það að ráðstöfunartekjur hafa á mörgum heimilum lækkað um tugi og jafnvel hundruð þúsunda.

Þessi málatilbúnaður hjá þér, Svala, er í besta falli barnalegur, þegar fyrir liggur að þúsundir fjölskyldna munu fara rakleiðis á hausinn á komandi mánuðum jafnvel þó atvinnuleysi komi ekki til.

Maron Bergmann (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 20:24

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Þú hefur enga tilfinningu fyrir þessu Svala frekar en ráðherrann.

Guðmundur St Ragnarsson, 3.5.2009 kl. 20:41

7 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Guðmundur minn, ég hef ágæta tilfinningu fyrir þessu. Enda hefur hér enginn skrifað sem ekki hefur efni á því að borga af lánunum sínum. Ellert segist velta því fyrir sér hvers vegna hann borgar af lánum sínum, en hann tekur jafnframt fram að hann geti gert það.

Guðrún borgar 130 þúsund af íbúð fyrir fimm manna fjölskyldu, sem er svipað og var borgað til skamms tíma í leigu fyrir þriggja herbergja blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. Vandi hennar er frekar verkefnaskortur bóndans en hár húsnæðiskostnaður.

Ég er sjálf með húsnæðislán sem hafa hækkað um 10 þúsund á mánuði, og launin hafa vissulega lækkað, en ég get samt borgað af lánunum og það sama á við um lang, langflesta sem ég þekki sem ekki hafa misst vinnuna.

Svala Jónsdóttir, 3.5.2009 kl. 21:27

8 identicon

Sæl Svala, ég hef efni á því að borga af lánunum mínum og hef gert það hingað til en núna er ég efins. Afhverju? Jú einfaldlega vegna þess að ég er ekki tilbúinn til þess að láta ræna mig lengur, ræna af mér því sem ég er búin að vinna mér inn í gegnum árin og þaðan af síður er ég tilbúinn til þess að greiða okurvexti til lánastofnana sem að settu þetta land á hausinn.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 21:44

9 identicon

og ég tek undir með Guðmundi þú hefur enga tilfinningu fyrir þess frekar en ráðherran

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 21:50

10 identicon

Eftir að hafa lesið nokkur kommentin hér, þá skilur maður betur af hverju Ísland er á hausnum. Kannksi er þetta bara kverúlantaröfl, en maður veit það samt ekki. T.d. Guðrún, hún lítur greinilega á það sjálfgefið að hún eigi rétt á einhverju lúxuslífi. Hún virðist ekki átta sig á því að íslenskt efnahagslíf undanfarin ár var reist á sandi!!  Er svona rosalega erfitt að skilja þetta!!

   Átti fólk von á því að þetta góðæri myndi vera til eilífðarnóns.

  Ég held að þetta fólk sem segist ekki ætla að borga af lánunum sé sama fólkið og hélt það væri orðið multi milljónerar, þegar húsin þeirra tvöfölduðust í verði á 2 árum

     ....þá var þetta sama fólk ekki ekki með mikla samúð með ungu fólki sem þurfti að leigja á háu verði, eða þeir sem voru nógu villtir til að kaupa, þurftu þá að kaupa á uppsprengdu verði sem þeir í flestum tilfellum myndu lenda í vandræðum með að greiða. Þetta er aumingjar, og það vita það allir. Aftur á móti er fullt af fólki sem hefur orðið fyrir skakkaföllum og því á að hjálpa.

Jóhannes (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 22:26

11 identicon

Ok, ég skal koma með eitt dæmi um einstakling sem ekki getur lengur borgað, og er það bara eitt af mörgum sem ég veit um!

Einstæð móðir með 4 börn, missir vinnuna, íbúðarlánin hækka, afborganir af bílnum, sem var að verða búið að greiða til fulls, orðið hærra en það var í upphafi og bíllinn ónýt drusla orðin, fyrir utan aðra reikninga og útgjöld! Núna er hún að fá atvinnuleysisbætur loksins, eftir langa bið og fær þá rétt rúmlega 100.000 kr,- á mánuði...eiginlega svolítið augljóst að endar ná engan veginn saman og hún getur ekki borgað af lánunum, sem hún gat áður. Hún stefnir því hraðbyra í gjaldþrot og má bara vera heppin að eiga í sig og sína og á!

Þetta er náttúrlega bara rugl og hreinasta siðspilling og þó að viljinn væri fyrir hendi að fara annað í leit að betra lífi, þá er ekki einu sinni til peningur fyrir því! Fólk er einfaldlega fast í ánauð og þetta er ekkert annað en þrælahald! Þetta er þó bara eitt af mikið fleiri dæmum sem ég persónulega þekki til...því miður!

Heiða (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 22:31

12 identicon

Já Jóhannes þér finnst bara í lagi að bankar og lánastofnanir ryksugi upp eigur landsmanna. Ekki var neitt vandamál að slá skjaldborg utan um peningamarkaðsjóðina, en síðan er í lagi að rýra verðgildi eigna þeirra sem vildu frekar fjárfesta i húsnæði.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 22:39

13 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Hvaða bull er hér í gangi. Það er fullt af fólki í greiðsluerfiðleikum. Þjóðin er gjaldþrota svo einfalt er það. Svo einblína stórnvöld á það að fólk borgi (okur) lánin sín 100% til baka (sem búið er að afskrifa um 50%) og láti jafnvel börn sín svelta í staðinn. Varðandi athugasemd nr. 10 þá vil ég svara því að Íslendingar eiga rétt á mannsæmandi lífi það sem Guðrún nefndi var ekki neinn lúxus heldur sjálfsögð réttindi.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 3.5.2009 kl. 23:00

14 identicon

Það kann að vera rétt reiknað hjá Gylfa að flestir geti staðið í skilum. Hann gerir sig hins vegar sekan um algjörlega rangar forsendur. FÓLK VILL EKKI STANDA Í SKILUM. Það er verið að ráðast inn á og ræna íslensk heimili um tugi þúsunda af ráðstöfunarfé í hverjum mánuði auk þess sem að allur sparnaður í formi húseignar var hirtur af fjölskyldunum á einni nóttu.

  • Gylfi gerir ráð fyrir því að fólk sé fyllilega sátt við það að eiga allt í einu ekki bót fyrir rassinn á sér og að allur sparnaður hafi gufað upp.
  • Gylfi gerir ráð fyrir því að fólk sé fyllilega sátt við að þurfa að borga 600 til 800 milljarða vegna innistæðutrygginga sem búið er að skuldbinda Íslendinga til að taka á sig. Og það ólöglega.
  • Gylfi gerir ráð fyrir því að almenningur sé hæst ánægður með að ríkisstjórnin hafi dælt 200 milljörðum af skattpeningum í sjóðsbréfasvartholið til bjargar stóreignamönnum.

AÐGERÐIR SEM ÞRÝSTA Á RÍKISSTJÓRNINA OG NEYÐA STJÓRNVÖLD TIL AÐ KOMA MEÐ ALVÖRU ÚRLAUSNIR ERU EKKI Á NOKKURN HÁTT HEIMSKULEGAR. ÞVERT Á MÓTI. VIÐ LIFUM OG STOFNUM TIL FJÖLSKYLDU Í KERFINU Á OKKAR ÁBYRGÐ OG ÞAÐ ER ÁBYRGÐARLEYSI AÐ TAKA EKKI ÞÁTT Í ÞEIRRI VINNU AÐ LEIÐRÉTTA KERFIÐ.

HVORT SEM AÐ FÓLK GETUR STAÐIÐ Í SKILUM EÐA EKKI Á ÞAÐ AÐ TAKA ÞÁTT Í ÞEIM AÐGERÐUM.

KRISTINN (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 23:01

15 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

SAMMÁLA, FÓLK ER EKKI FÍFL.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 3.5.2009 kl. 23:04

16 identicon

Sólveig,

   Jú fólk er fífl, það er nefninlega vandamálið

 Sigurður,

    Þú eins og svo margir aðrir virðist ekki skilja það að það er eitthvað til sem heitir verðbætur og hefur verið í mörg ár á Íslandi. Síðan er til eitthvað sem er verðbólga sem einnig hefur ávallt skotið upp kollinum á Íslandi. Síðan er eitthvað til sem heitir eignabóla, sem er fyrirbæri sem skýtur upp kollinum reglulega.

    Heimtufrekjan er algjör í þessum hópi. Ég bara spyr aftur hvar voruð þið húsnæðiseigendur þegar ytra umhverfið var ykkur hagstætt, og eignir ykkar tvöfölduðust á skömmum tíma?!  ....ég bara spyr.

   Nú þegar ytri aðstæður eru ykkur óhagstæðar, þá rjúkið þið upp, eins og þið eigið heiminn!!

   Þið komið óorði, ekki bara á Íslendinga, heldur alla þá sem vilja taka á hinum raunverulega vanda, sem eru græðgi og fjárglæfrastarfsemi. Þið eruð til skammar!!

Jóhannes (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 23:47

17 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Heiða. Kona sem hefur misst vinnuna á rétt á því að fá íbúðalánin sín fryst hjá Íbúðalánasjóði í allt að þrjú ár. Rétturinn til þess að fá lánin fryst í svo langan tíma er m.a. þegar fólk missir vinnuna. Konan í dæminu þínu þarf því ekki að borga neitt af húsnæðislánunum og er vonandi komin með vinnu innan þriggja ára.

Svala Jónsdóttir, 3.5.2009 kl. 23:53

18 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Sólveig Þóra: Ég veit ekki betur en að talsmenn bankanna hafi borið það ítrekað til baka að búið sé að færa lán almennt niður um 50%, nú síðast í Fréttablaðinu.

Þar fyrir utan eru langflest íbúðalán landsmanna hjá Íbúðalánasjóði og þar hefur ekkert verið fært niður. Tuttugu prósent niðurfærsla lána myndi setja ÍLS snyrtilega á höfuðið eins og margoft hefur verið bent á, nema auka fjárveiting komi til. Hvaðan á hún að koma? Er ríkið aflögufært? Eru skattgreiðendur aflögufærir?

Svala Jónsdóttir, 3.5.2009 kl. 23:56

19 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Jóhannes þú ert sjáflum þér til skammar, sjá hvernig þú skrifar eins og þú sért að tala niður til einhverra ræfla sem við erum ekki. Þó að það sé verðtrygging á lánum en ekki launum  á Íslandi þá er það óréttlátt hvort sem við skijum það eða ekki. Jóhnnes þú ert þér til skammar. Hver þykist þú vera eiginlega. Komdu fram undir fullu nafni en ekki gunga eins og þú ert.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 00:01

20 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Svala þegar bankarnir opnuðu fyrir húsnæðislán þá fékk fjöldinn allur af fólki lánað þaðan. En þú ert bara ekki að sjá raunveruleikann í réttu ljósi. Á meðan verðtrygging lána er til staðar og eins og hún hefur verið um ca 20% þá hækka lánin í samsvari við það en á meðan lækkar húsnæðisverð. Síðan er fjöldi af fólki með körfulán þ.e. í erlendum gjaldmiðli hækkunin hjá þeim er um helming.  Þeir sem voru að borga um 200.000 á mánuði eru nú að borga um 400.000. Ef þetta fólk er búið að missa vinnuna og komið á bætur þá getur þú reiknað út hvort það fólk er greiðsluhæft.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 00:09

21 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Svo ég megi bæta við. Þá eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar  með svokallaðari greiðsluaðlögun , þetta á við fólk sem komið er að gjaldþroti. Væri ekki nær fyrir þetta viskufók, búsáhaldabyltingar með meiru kjörinni í stjórn að leiðrétta skuldastöðu heimilanna áður en til gjaldþrota kemur. Við Íslendingar látum ekki traðka á okkur lengur. Við viljum lausnir fyrir heimilin en það virðist ekki vera að gerast í þessari vinstri stjórn. Fatta ekki af hverju í ósköpunum fólk kýs þessa hörmung yfir sig.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 00:49

22 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Svala ... þú ert bara hreinlega ekki í takt við raunveruleikann og gerir þér greinilega ekki grein fyrir hversu illa er komið fyrir fjölda heimila í dag og þá er ég bara að tala um þau heimili sem eru í vanda vegna breyttra aðstæðna frá því í október s.l.   Þú segir t.d. hér fyrir ofan að þín greiðslubyrði vegna lána hafi hækkað um 10þús pr mán en þú getir samt borgað. Flott ....  þú segir launin þín hafa lækkað?  Ja ...  ok, það er slæmt. EN málið er að fólk sem er t.d. með 120 þús útborguð laun á mánuði, því munar SÁRLEGA um 10þús kr. hækkun á greiðslum lána ...   Það er bara svo erfitt fyrir fólk sem er með ágætar tekjur að setja sig í spor þeirra sem minnst hafa. Mig grunar að þú sért ein af þeim.

Katrín Linda Óskarsdóttir, 4.5.2009 kl. 00:56

23 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Samkvæmt könnun ASÍ frá því í janúar sl. eru 9% heimila með húsnæðislán í erlendri mynt. Mikill meirihluti er með verðtryggð húsnæðislán og afborganir af þeim hafa ekki hækkað svo mikið. Það er óumdeilt.

Ef fólk þolir ekki hækkun um 10 þúsund krónur á mánuði, hefur það væntanlega verið að veðsetja sig um of. Ef viðkomandi hefur misst vinnu á hann eða hún rétt á frystingu. Einhverjir standa mjög illa og þeir eiga rétt á greiðsluaðlögun.

Svala Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 10:06

24 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Katrín Linda: Ef fólk er með 120 þúsund krónur útborgaðar á mánuði er það væntanlega ekki að borga af 18 milljón króna húsnæðisláni, þar sem það hefði aldrei fengið greiðslumat á svo hátt lán með þær tekjur.

Ef tekjurnar hafa lækkað vegna þess að vinna hefur minnkað er hægt að skoða frystingu lána.

Svala Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 10:08

25 Smámynd: ThoR-E

Jóhannes: Þú ert að gera þig að fífli hérna.

Þetta svokallaða góðæri .. það sá ég aldrei, ekki frekar en flestir Íslendingar.. nokkrir aðilar urðu óhugnanlega ríkir því þeir stunduðu bankaviðskipti með ríkisábyrgð, augljóslega.

Þú ert að segja að fólk eigi það bara skilið að ævisparnaður þeirra hafi verið tekinn af þeim .. íbúðalán hafa hækkað um milljónir og afborgunin um tugi þúsunda per mánuð.

Þetta er bara í góðu lagi finnst þér??

Vitleysingur.

ThoR-E, 4.5.2009 kl. 12:15

26 Smámynd: ThoR-E

Svala.. afborganir hækkað um 10 þúsund ??

Lánið mitt hefur hækkað úr 11 milljónum í 15 milljónir .. samt hef ég borgað af því samviskulega í 3 ár tugi þúsunda á mánuði.

Afborgunin var í kringum 40 þúsund .. núna er hún nær 70 þúsund.

Þótt að þetta sé í lagi hjá þér í augnablikinu .. á eflaust eftir að versna frekar en batna .. að þá finnst mér vera ámælisvert að þú talir niður til þeirra sem eru í mun meiri vandræðum en þú.

Segir soldið mikið um þig vinan.

ThoR-E, 4.5.2009 kl. 12:19

27 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Afborgunin hefur hækkað um 10 þúsund á síðasta ári. Þetta er sem sagt sú hækkun sem hægt er að rekja beint til fjármálakreppunnar og bankahrunsins hér heima.

Ég veit ekki til þess að nokkuð verðtryggt lán hafi hækkað úr 40 þúsund í 70 þúsund króna afborgun á einu ári. Ef þú ert að tala um hækkun til margra ára, þá tengist það ekki bankakreppunni.

Ég er ekki að tala niður til neins. Þú talar hins vegar niður til mín með því að ávarpa mig sem "vinu" þína. Ég þekki þig ekki og þú skrifar ekki einu sinni undir nafni.

Svala Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 16:21

28 Smámynd: ThoR-E

Hvort ég skrifa undir nafni eða ekki að þá hefur lánið mitt samt hækkað úr 11m í 15m.

Eigum við ekki að einbeita okkur að aðalatriðinu hérna?

Afborgunin hækkaði bara eftir hrunið .. á síðustu mánuðunum! 

Ætlunin var ekki að tala niður til þín .. en hvort sem þér finnst ég hafa gert það eða ekki .. að þá tel ég þig að vissu leyti tala niður til þeirra sem eru í vandræðum .. með skrifum þínum. Kannski ekki viljandi .. 

ThoR-E, 4.5.2009 kl. 16:34

29 identicon

Það er ekki fræðilegur möguleiki að AceR sé með verðtyggt lán í Íslenskum krónum ef þetta er rétt sem hann er að segja um hækkunina á þessum lánum og afborgunum.

Hvernig lán ertu með AceR?

Bjöggi (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 17:22

30 identicon

Ace,

  Það þýðir ekki fyrir þig að mála þig sem einhvern ræfil, og búast við einhverju málefnanlegu svari. Hvernig væri að við myndum halda okkur við raunveruleikann. Þú biður um vorkunn vegna þess að þú ert að greiða 70.þús í afborgun. 

   Ég veit um marga sem hafa verið að borga á milli 120-150 þús á mánuði  í  húsaleigu fyrir 3 herbergja íbúðir , þar sem fasteignamarkaðurinn fór fram á okurverð. Hvar varst þú þá?? Það heyrðist ekki mikið í "kúguðum" fasteignaeigendum eins og þér þá!!

  Þegar ég les hugleiðingar sumra hérna, t.d. Sólveigar, Ace o.fl. þá veltir maður því fyrir sér í hvaða draumaveröld sumir búa í. Maður veltir líka fyrir sér hvort fólk sé einfaldlega ekki að djóka. Heimtufrekjan er þvílík og önnur eins. Af hverju svarið þið ekki það sem ég talaði um t.d. um spár ýmissa aðila og fleira um húsnæðismarkaðinn?? Verðbólga er ekkert nýtt fyrirbæri á Íslandi!!

   Þið eruð á góðri leið með að eyða samúð með fólki sem er í raunverulegri neyð. Auðvitað tekst það ekki hjá ykkur, en þið munuð eflaust reyna ykkar besta. 

   Það á að hjálpa fólki sem þarf að hjálp. Ekki einhverjum kverúlantaaumingjum, og þeim ríku, ef við gerum það þá verða einfaldlega ekki peningar til að hjálpa þeim hjálparþurfi, eins og mörgum sem hafa tjáð sig hér á þessari síðu. 

Jóhannes (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 17:36

31 Smámynd: ThoR-E

Verðtryggt lán í Íslenskum krónum.

Það var upprunalega 11 milljónir, hef borgað af því í 3 ár.. tugi þúsunda per mánuð.

Núna er það í ... nákvæmlega 14.6 eða 14.7 ...

Svona er þetta bara Bjöggi ... það er verið að taka fólk í þurrt **********

Dapurlegt ... en satt.

ThoR-E, 4.5.2009 kl. 17:59

32 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Það er gaman að þér Jóhannes rörkræður virðast vera þín sérgrein....... eða ekki. Svo ég svari fyrir sjálfa mig þar sem þú nefnir m.a. mínar hugleiðingar þá skilur þú ekki að ég er að tala um fólkið sem er illa statt, hvergi nokkurstaðar minnist ég á mín fjármál. Eins finnst mér Ace ekkert vera að kvarta, hann er að svara siðueiganda. Þú sagðir:

" þá verða einfaldlega ekki peningar til að hjálpa þeim hjálparþurfi, eins og mörgum sem hafa tjáð sig hér á þessari síðu"   Ég veit ekki betur en þú hafir rakkað þá niður sem eru að tjá sig um sín fjármál á þessari síðu. Svo bentu mér á þessa marga hjálparþurfi sem hafa tjáð sig hér og þurfa á hjálp að halda að þínu mati? Annars var fróðlegt að sjá Kastljósið í kvöld. Þar komu fram 2 menn sem eru að umgangast fólk í fjárhagserfiðleikum og sjá raunveruleikann eins og hann er í dag og annars vegar 1 raunveruleikafyrrtur Viðskiptaráðherra. 

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 22:04

33 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Mæli með þessu bloggi. Segir allt sem segja þarf.

http://vala.blog.is/blog/pistlar/entry/869115/

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 22:12

34 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég ætla að vitna í ágæta grein Jóns Kaldal úr Fréttablaðinu í dag:

"Mikilvægt er að fólk gerir sér grein fyrir að hvatningin um að þeir hætti að borga, sem geta staðið undir greiðslubyrði sinni, er fyrst og fremst líkleg til að fjölga þeim sem missa fasteignir sínar. Jafnvel að þarflausu.

Fyrir stóran hluta þeirra sem skulda nú meira en fasteignin þeirra er metin á, skiptir geysilega miklu máli að reyna að hanga á eigninni sinni. Þegar landið fer að rísa, sem það mun örugglega gera þótt það sé ekki í sjónmáli, mun eiginfjárstaðan fylgja með."

http://www.visir.is/article/20090504/SKODANIR04/65060668/-1

Svala Jónsdóttir, 4.5.2009 kl. 23:12

35 Smámynd: ThoR-E

Jóhannes er nú meiri brandarakallinn.

Semsagt afþví að afborgunin hjá mér er 70 þús en ekki 120.000 að þá á ég bara heimtufrekur og á að þegja.

Svona flón eru ekki svaraverð.

ThoR-E, 5.5.2009 kl. 00:17

36 identicon

Greiðsluverkfall er flugbeitt vopn sem skuldarar hafa, hættulegt fyrir þjóðarbúið, þess vegna er brugðist svo hart við. Það er það beitt að það gæti komið af stað öðru bankahruni. Þess vegna og einmitt þess vegna verður að bregðast við. Það er nefnilega ekki víst að þá verði hægt að tryggja innistæður í íslensku bönkunum með ríkisábyrgð. Niðurstaðan er því ennþá verri skellur sem fellur þá á fjármagnseigendur fyrst og fremst því að skuldarar hafa þegar fengið rassskellinn. Ok. Þetta er fjárhagsleg borgarastyrjöld sem er fyrirfram töpuð fyrir fjármagnseigendur.

Ef ekkert útspil kemur frá stjórnvöldum í þessari viku eða um helgina síður uppúr hérna hjá okkur.

Styttingur (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 01:32

37 identicon

Styttingur,

   Ég held að þú hafir akkúrat hitt naglann á höfðuðið. Þetta er nefninlega
stríð hjá þessum litla og háværa hópi, eins og t.d. Ace.

   Ég tek það fram að ég á ekki krónu inni á bankareikningum, aftur á móti
hefur maður verið láta enda ná saman með yfirdráttarreikningi. Það hljómar
alveg mjög vel að ég þurfi ekki að borga hann   

    Ace, 

      Ég er ekki alveg ná þér kúturinn!!  Ég var einfaldlega að segja að
staða fólks er mjög mismunandi, og þú ert eflaust í ágætri stöðu miðað við
marga. Það sem ég er að segja er að ef þú kaupir húsnæði eftir verð hefur
hækkað um 100%, þá eru mjög miklar líkur á verðlækkunn. Er svona erfitt að
skilja það??  Þessi verðlækkun kemur fram í gegnum verðbótakerfið, eða í
nafnverði. Ég hef verið að borga leigu undanfarin ár, þar sem það var óðs
manns æði að kaupa sér íbúð fyrir 2 árum. Núna get ég t.d. ekki keypt íbúð,
vegna þess að engin vill selja, og einu skiptin sem eru í gegnum
makaskipti. Það eru allir í sama skítnum!!!!

   Nú er t.d. verðhjöðnun og þá lækka afborganir fólks.  Aftur á móti ef fólk vill gera sig gjaldþrota, þá er það í sjálfu sér þeirra mál, og eflaust margir betur settir þannig. Hvað varð eiginlega um baráttuanda Íslendinga?  
Reyndu nú að lesa það sem ég hef fram að færa og reyna að skapa vitræna umræðu.

Jóhannes (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 21:06

38 identicon

Staðreyndin er sú að nú er að verða til heil kynslóð íslendinga sem mun þurfa að vinna alla sína ævi án þess að eignast nokkurn skapaðan hlut.  Þeir sem hafa verið að koma sér upp þaki yfir höfuðið sjá eignir sínar hverfa út úr höndunum vegna verðtryggingar, verðfalls á fasteignum og falls krónunnar.

Þeir sem töldu sig vera komna yfir erfiðasta hjallann í því að koma sér upp þaki yfir höfuðið og voru farnir að sjá eignamyndun í fasteigninni sinni horfa nú upp á það að allt er horfið skuldafenið teygir sig 40 til 50 ár fram í tímann.

Og Jóhannes hvað ertu að bulla að nú sé verðhjöðnun og þá lækki greiðslubyrði fólks vextirnir og verðbæturnar eru nú þegar komnar til viðbótar við höfuðstól verðtryggðra lána sem þýðir það einfaldlega að þau hækka ekki eins hratt og þau gerðu fyrir nokkrum vikum síðar.

Ég held svei mér þá að sumir sem eru að kommenta hérna um það að ástandið sé ekki svo slæmt séu hreinlega ekki fluttir að heiman ennþá og þurfi þar af leiðandi ekki að hafa áhyggjur af því að hafa þak yfir höfuðið og framfleyta fjölskyldu

Maron Bergmann (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 22:44

39 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Rétt hjá þér Maron Bergmann. ps. það þýðir ekki að rökræða við Jóhannes hann sér bara eina sýn þ.e. sína. 

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 6.5.2009 kl. 00:03

40 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Nei, það þýðir lítt að deila við þá sem daufheyrast, það sannast nú aldeilis hérna, göfugi síðuhaldari!

En ástandið mun samt lagast, til dæmis strax á morgun, fimmtudag, vonandi góð stýrivaxtalækkun þá kunngerð, 3%+ eða þar um bil og svo frekari lækkun í fleiri og örari skrefum.Ef það gengur eftir, mun brúnin léttast og afborganirnar heldur betur með.

Magnús Geir Guðmundsson, 6.5.2009 kl. 02:14

41 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

En hvernig er það síðuhaldari, er búið að afskrifa alveg drauminn um að skemmta sér með fyrirbærinu með sprengiflugvélarnafninu í ónefndri norrænni borg í sumar?

Magnús Geir Guðmundsson, 6.5.2009 kl. 02:20

42 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ef þeir sem geta ennþá borgað ætla að fara í greiðsluverkfall, hvað verður þá um peningana sem verða aukreytis (peningana sem þeir gætu notað til að borga af láninu en fara nú í annað)? Varla leggja þeir þá inn á bankabók? Ef svo væri gætu þeir alveg eins borgað bankanum af láninu, er það ekki? Ég mæli með 50 tommu flatskjá eða nýjum jepplingi....

Þessi er góður:

http://www.porsche.com/microsite/cayenneturbo-s/usa.aspx

Þeir fá vonandi ekki samviskubit af því þegar eigandi bankanna, Íslenska ríkið verður gjaldþrota og ekki verður lengur hægt að hjálpa þeim sem hafa ekki í sig og á, heilbrigðiskerfið og menntakerfið hrynur og erlendir lánardrottnar taka við stórn landsins. Þeir geta þá bara flutt til Tortóla eða Katar. Þar býr víst sheik sem er íslandsvinur mikill...

Hörður Þórðarson, 6.5.2009 kl. 07:26

43 Smámynd: ThoR-E

Jóhannes: Ekki vera svona þver maður.

Það er eitt að verðið á íbúðinni lækki ... það  er annað að það hækki um 4 milljónir á 1 ári.

Reyndu að vakna drengur. Finnst þér þessi þjófnaður á fjármunum þjóðarinnar bara í góðu lagi.

Maður nennir ekki að ræða við svona flón.

ThoR-E, 6.5.2009 kl. 11:36

44 Smámynd: ThoR-E

Þá á ég við að "það" .. íbúðalánið ... hækki um 4 m ... þótt ég hafi borgað af íbúðinni í 3 ár.

ThoR-E, 6.5.2009 kl. 11:37

45 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ah, njósnavél átti það nú reyndar að vera, ekki sprengjuvél haha!

Magnús Geir Guðmundsson, 6.5.2009 kl. 17:45

46 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Hörður ég held að enginn sem getur borgað af lánum sínum vilji fara í greiðsluverkfall. Það sem fólk vill er að stjórnvöld setji lög eða reglugerðir sem leiðrétti lán skuldara þ.e. verðtryggingin er eignaupptaka og svo er víst ekki á hreinu hvort megi tengja afborganir og eftirstöðvar erlendra lána  við gengið dagsdaglega eins og gert er í dag. Já væri nú ekki gott ef leiðrétting yrði gerð og fólk ætti sinn pening sem er verið að stela af þeim eins og ástandið er í dag. Það er jú hægt að eiga þá inni á bankabók eða njóta þeirra á einhvern hátt. Ef íslenska ríkið fer á hausinn ef það hættir að stela af skuldurum þá er eitthvað mikið að sem þarf að skoða.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 6.5.2009 kl. 18:30

47 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Afborgunin af láninu mínu LÆKKAR nú á milli apríl og mai! Hvernig skildi nú standa á því góðir hálsar, víggirt og verðtryggt í rammíslenskum krónum? En bara 2,5% lækkun stýrivaxtanna, aðeins minna en ég bjóst við, vonandi lækka þeir meir og sem fyrst.

Magnús Geir Guðmundsson, 9.5.2009 kl. 01:21

48 Smámynd: Óskar

Kæra frænka. Hvernig íbúð telur þú að fólk hafi getað fengið fyrir undir 20 milljónir? Þetta var ekki eins og það er í dag. Það var auðvelt að fá 80% lán hjá bankanum og svo lífeyrissjóðslán og ALLIR vildu endilega lána fólki. Ég veit ekki hvaða launum þú ert á en 10.000 krónur er peningur sem er hægt að nýta mjög vel og skiptir flesta miklu máli að missa ekki. Á móti kemur að þó svo fólk sé ekki búið að missa vinnuna þá eru mjög margir búnir að taka á sig tekjuskerðingu. Það sem kemur aftur á móti ekki fram varðandi launa"skerðingu" heimila, og heyri ég mjög mikið af því þar sem ég vinn við að fara inn á heimili fólks, er það að það er búið að taka af fólkinu yfirvinnuna. Þar eru fleiri tíðu þúsund kallar á mánuði. Matarkarfan er búin að hækka um helling, bensínið er búið að hækka, fasteignagjöldin eru búin að hækka, klósettpappír, ræstingavörur, heimilistæki...nefndu það.

 Mér finnst einföldun og nánast vanvirðing við fólk að tala um að þessi eini tíuþúsund kall skipti varla svo miklu máli.

Hafðu það annars gott frænka :)

Óskar, 15.5.2009 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband